Drangur kominn á flot

29.10.2020 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Sigurður Örn Ste - RÚV
Togarinn Drangur sem sökk við bryggju á Stöðvarfirði snemma á sunnudagsmorgun er aftur kominn á flot og liggur við bryggju. Eftir nokkurra daga undirbúning var skipinu lyft í dag.

Sigurður Örn Stefánsson, eigandi Köfunarþjónustu Sigurðar, stjórnaði aðgerðum. „Aðgerðir hafa gengið gríðarlega vel. Við byrjuðum daginn klukkan fimm í morgun. Við kveiktum á dælum rúmlega fimm eftir að hafa undirbúið hér langt fram eftir kvöldi. Fljótlega, 40 mínútum síðar byrjaði skipið að lyftast. Þetta hefur gengið gríðarlega vel. Skipið er farið að fljóta við bryggju bara örfáum klukkutímum síðar. Nú er farið að dæla úr þeim rýmum í skipinu sem stóru dælurnar hafa ekki náð.“

Sigurður segir það þó ekki hafa komið á óvart hversu vel gekk. „Við erum með gríðarlega öflugan búnað við aðgerðina og gríðarlega mikil reynsla. Við erum búnir að vinna við þetta í 22 ár og höfum tekið upp marga tugi skipa. Við gerðum ráð fyrir að þetta myndi ganga mjög vel, en við vorum með fyrirvara á því að í svona aðgerðum getur alltaf eitthvað komið upp á. Það gerðist ekki núna og allt gekk fullkomlega upp hjá okkur.“

Vinnan er þó ekki búin, dagurinn í dag og morgundagurinn fara í frágang og að klára verkið. Að því loknu fær útgerðin skipið í hendurnar og ákveður framhaldið.