Þyrla og skriðbíll notuð til að tengja Mjófirðinga

28.10.2020 - 20:04
Ýmiss konar farartæki, fljúgandi, keyrandi og jafnvel skríðandi, voru notuð til að leggja nýjan rafstreng til Mjóafjarðar. RARIK á Austurlandi hefur undanfarið prófað léttan skriðbíl sem fer yfir torfærur án þess að skemma land.

Þetta er svokallaður buggy-bíll, nema í staðinn fyrir dekkin eru komin fjögur skriðbelti. Buggy-bílar eru mikið notaðir sem leiktæki en undanfarið hefur notagildið komið í ljós. Bændur hafa nýtt þá til að smala og eftir að RARIK á Austurlandi prófaði að leigja slíkan bíl í verkefni var ekki aftur snúið. Fjórir geta setið í bílnum sem RARIK keypti og hann hefur ýmsa kosti umfram sexhjól.

Þurfa að fara um lönd sem aðrir eiga

„Þarna erum við með veltibúr þannig að við erum miklu öruggari inni í þessu og við sitjum þarna í fjögurra punkta beltum og svo eru kannski kostirnir líka þeir að við erum með bílinn okkar á beltabúnaði. Sem þýðir að hann er ofan á landinu, hann er ekkert að fara niður í það. Hann skemmir ekki neitt sem er náttúrlega gríðarlegur kostur þegar kemur að því að þurfa að fara yfir landsvæði sem aðrir eiga. Við bæði getum keyrt þetta greitt og utan vegar og á vegi og svo þegar þú ert kominn með þetta á beltin þá ertu búinn að taka þetta niður í hraða en á móti kemur að þú ert kominn með lægri gír og ætli það sé ekki bara hugrekkið í ökumanninum sem stoppar hvað þetta kemst,“ segir Hafliði Bjarki Magnússon, verkstjóri RARIK á Austurlandi.

Toguðu þúsund metra álvír með þyrlu

Bíllinn hefur nýst vel undanfarið til að flytja starfsmenn og búnað upp Austdal í Seyðisfirði þar sem raflínan fer yfir fjallaskarð til næsta fjarðar. Í Brekkugjá fyrir ofan Mjóafjörð  hafa starfsmenn RARIK og verktakar lagt mikið á sig í um 750 metra hæð til að koma þrífasa rafmagni í Brekkuþorp í Mjóafirði. „Við fengum hjálp þyrlu, þetta er þekkt í Noregi að nota þyrlur í svona vinnu og örugglega víðar, en við fengum já þyrlu til að hjálpa okkur við þetta. Hún flaug upp með vírinn og við vorum í eina fjóra klukkutíma að spenna þrjá þúsund metra víra þarna á milli. Þetta fór langt fram úr björtustu vonum,“ segir Hafliði.

Vírinn er úr áli og mátti ekki dragast eftir jörðu. Talsverð átök þurfti til að toga vírinn upp úr Mjóafirði og þá reyndi á nákvæmni flugmannsins til að hægt væri að festa vírinn á staurana á fjallsbrún.

Fram af fjallinu er eitt lengsta spenn landsins, eins og það er kallað, hafið á milli staura frá brún og niður í fjörðinn er um 900 metrar. Landsnet á spenn í Hvalsfirði fyrir vestan sem er 909 metrar og í Hólasandslínu 3 verður Laxárdal þveruð með um kílómetra spenni. „Tilgangurinn er að skila Mjófirðingum þriggja fasa rafmagni og standa þar með við loforð. Fyrir 2035 eiga allir að verða komnir með þriggja fasa rafmagn,“ segir Hafliði Bjarki Magnússon, verkstjóri RARIK á Austurlandi.