Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Það eru rauð flögg hér og þar“

28.10.2020 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sóttvarnalæknir segir rauð flögg á lofti í þróun COVID faraldursins og ekki sé ástæða til að draga úr sóttvarnaaðgerðum. Hann segist orðinn svartsýnni en hann var í síðustu viku. Rekja má um 120 sýkingar til hópsmitsins á Landakoti.

Einstaklingur á níræðisaldri lést í gær af völdum COVID og hafa því tólf látist í faraldrinum hér á landi. 86 greindust með kórónuveiruna í gær og voru rúmlega 70% í sóttkví, það eru fleiri smit en í fyrra dag. Áfram er aukning í samfélagsssmitum, hópasmit í skólum og fleira.

„Þetta er svona aðeins að dreifa sér sem að gefur ekki góðar vonir um framhaldið,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann segist því svartsýnni núna en hann hefur verið undanfarna daga.

„Ég var mjög bjartsýnn í síðustu viku, mér fannst við vera á góðri leið og þessar aðgerðir sem gripið var til í byrjun mánaðar og voru svo hertar fyrir rúmri viku, ég hafði góðar vonir um að það væri að skila þeim árangri sem vonast var til, samfélagssmitið væri að fara niður. En svo kemur þetta bakslag sem við erum að sjá núna, við erum að sjá þessar hópsýkingar sem maður var hálf hræddur við að gæti gerst og þá erum við ekki að sjá samfélagssmitið fara niður í raun og veru og kannski eru teikn um að það sé að fara upp á við.“

Þetta gerist á sama tíma að landamærasmitum fjölgar, en að miklu leyti hafi tekist að koma í veg fyrir að þau berist inn í samfélagið og Landspítalinn sé nú kominn á neyðarstig með tilheyrandi vanda og sóttvarnahúsin séu komin að þolmörkum.

„Það eru rauð flögg hér og þar sem að gera það að verkum að það þarf að hugsa þetta upp á nýtt.„
Býstu við að þú leggir til harðari aðgerðir í framhaldinu?
„Ja, það kannski liggur svolítið í mínum orðum að það sé í raun og veru það eina eftir. Við erum búin að vera með ansi harðar aðgerðir og biðla alveg látlaust til einstaklinga um að standa sig því í grunninn eru þetta mjög einföld skilaboð.“

Sem eru, eins og marg oft hefur komið fram, að forðast hópamyndun og sameiginlega snertifleti, nota grímur og gæta að hreinlæti og sprittun. Þórólfur segir stóran hluta fólks fara eftir þessu, en það að einhverjir geri það ekki valdi sýkingum. Þróunin sé eins í öðrum löndum. Þórólfur segir ekki liggja nákvæmlega fyri hversu mörg smit megi rekja til hópsýkingarinnar á Landakoti, en...

„Mér sýnist þetta sé kannski eitthvað í kringum 120 smitsýkingar sem má rekja beint og óbeint tl Landakots.“

Smit úr þeirri sýkingu séu því farin að berast út í samfélagið. Þórólfur segir að hópurinn utan sóttkvíar, sem notaður sé sem mælikvarði á útbreiðslu smfélagssmits, fari vaxandi þvert á það sem stefndi í í síðustu viku og útlit var fyrir afléttingu aðgerða. Nú sé annað upp á teningnum.

„Við erum ekki, allavega frá mínum bæjardyrum séð, ekki að fara að horfa á afléttingu, það væri ekki skynsamlegt á þessum tíma,“ segir Þórólfur Guðnason.