Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Silverado-eldurinn kviknaði mögulega út frá rafmagni

28.10.2020 - 06:28
epa08779630 A firefighter works at containing the Blue Ridge Fire as it spreads in the hills near homes in Chino Hills, California, USA, 27 October 2020.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ógnarmikill gróðureldur sem blossaði upp í Kaliforníu í fyrradag kviknaði mögulega út frá neistum frá háspennulínu. Talsmaður orkufyrirtækisins sem ber ábyrgð á háspennulínunni greindi frá þessu í gærkvöld.

Mestu gróðureldar í sögu Kaliforníuríkis hafa logað í sumar og haust og á mánudag kviknuðu enn nýir eldar í Orange-sýslu í sunnanverðu ríkinu. Breiddust þeir út með ógnarhraða með þeim afleiðingum að tveir slökkviliðsmenn slösuðust lífshættulega og um eða yfir 90.000 manns var gert að yfirgefa heimili sín í skyndi. Stærri eldurinn, sem fékk heitið Silverado-eldurinn, hafði sviðið um 3.000 hektara gróðurlendis á hádegi í gær.

Rafmagnskapall slóst mögulega utan í háspennulínu

Nú hefur orkufyrirtækið Southern California Edison greint frá því að rafmagnskapall sem tengdur var símalínum hafi mögulega sveiflast svo mikið í hvassviðri að hann hafi slegist utan í háspennulínu fyrirtækisins beint fyrir ofan hann, með þeim afleiðingum að neistar hlupu í skraufaþurran gróðurinn allt um kring og kveikt eldinn. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að málið sé í rannsókn og að rafmagn hafi verið tekið af nær 19.000 heimilum og fyrirtækjum í öryggisskyni.

Yfir 750 slökkviliðsmenn hafa barist við Silverado-eldinn síðan á mánudag og notið við það aðstoðar 14 sérútbúinna þyrlna, með litlum árangri enn sem komið er.