Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nýir íbúðarreitir of nálægt umferðarþungum stofnbrautum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerir nokkar athugasemdir við breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem auglýstir eru nýir reitir fyrir íbúðabyggð og hverfiskjarna. Eftirlitið telur að tveir af þessum reitum séu of nálægt umferðarþungum stofnbrautum. Þá hugnast eftirlitinu ekki að umfangsmiklir vínveitingastaðir verði leyfðir í nýjum hverfiskjörnum.

Tillagan felur í sér heimildir fyrir fjölda íbúða á nokkrum nýjum og eldri byggingarreitum auk skilgreiningar nýrra hverfiskjarna.   Þetta eru Arnarbakki í Neðra Breiðholti, Eddufell, Völvufell og Suðurfell í Efra Breiðholti, Rangársel í Seljahverfi, reitur á mörkum Háaleitisbrautar og Miklubrautar í Háaleitis- og Bústaðahverfi og reitur við Vindás og Brekknaás í Seláshverfi 

Heilbrigðiseftirlitið segir í umsögn sinni að í hverfiskjörnum fyrir reiti við Arnarbakka, Eddufell, Fellagarða og Rangársel sé gert ráð fyrir að hægt verði að vera með umfangsmikla áfengisveitingastaði samkvæmt ákvörðun í deiliskipulagi eða hverfisskipulagi.

Bent er á að slíkir staðir leiki háværa tónlist og kalli á meira eftirlit og/eða löggæslu.  Eftirlitið leggst gegn því að slíkir staðir séu leyfðir í íbúðabyggð eða nærri íbúðabyggð vegna neikvæðra grenndaráhrifa. 

Hvað varðar íbúðarreit við Háaleitisbraut-Miklubraut segir eftirlitið að ekki sé æskilegt að reisa nýtt íbúðarhúsnæði nálægt umferðaþungum stofnbrautum eins og Miklubraut.  Samkvæmt hávaðamælingu sé hljóðstig á fyrirhuguðum íbúðarreit á bilinu 65 til 75 desíbel en miðað við núgildandi reglugerð eigi hljóðstig ekki að fara yfir 55 desíbel. 

Þá bendir eftirlitið á að miðað við mælingar meðfram Miklubraut séu loftgæði á þessum reit frekar slæm.

Heilbrigðiseftirlitið gerir einnig athugasemdir við fyrirhugaðan íbúðarreit að Furugerði -Bústaðavegi þar sem hann sé of nálægt umferðaþungri götu. Til að sá reitur yrði að veruleika þyrfti mögulega að notast við undanþáguákvæði hávaðareglugerðar.

Þá bendir eftirlitið á að árdagsumferð um Bústaðaveg hafi verið 15.800 bílar árið 2018. Þar sem fyrirhugaðar íbúðarreitur sé alveg niður við götuna séu líkur á að loftgæði verði ekki góð.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV