Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Meirihluti segist hlynntur Nýju stjórnarskránni

28.10.2020 - 22:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Meirihluti þeirra sem tóku þátt í könnun Maskínu er hlynntur því að Nýja stjórnarskráin sem Stjórnalagaráð lagði fram verði lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá Íslands. Fimmtungur er á móti og fjórðungur er í meðallagi fylgjandi.

Fram kemur á vef Maskínu að marktækt hærra hlutfall kvenna en karla sé hlynnt Nýju stjórnarskránni þótt meirihluti sé hjá báðum kynjum.

Mjög mikill munur er hins vegar á afstöðu eftir stjórnmálaflokkum.

Nærri níu af hverjum tíu kjósendum Pírata og Samfylkingar eru hlynnt því að Nýja stjórnarskráin verði lögð til grundvallar, rúmlega sextíu prósent kjósenda Viðreisnar og VG og um þriðjungur kjósenda Framsóknarflokksins og Miðflokksins.

Mest er andstaðan hjá Sjálfstæðisflokknum en aðeins 16 prósent þeirra sem kusu flokkinn vilja að Nýja stjórnarskráin verði lögð til grundvallar.

Í orðsendingu frá Stjórnarskrárfélaginu kemur fram að könnunin hafi ekki verið unnin að frumkvæði þeirra.

Alls tóku 838 þátt í könnun Maskínu. Svarendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram dagana 19. til 27. október.