Guðni Bergs: „Slæmar fréttir fyrir okkur öll“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Guðni Bergs: „Slæmar fréttir fyrir okkur öll“

28.10.2020 - 13:27
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir orð sóttvarnalæknis um að herða þurfi aðgerðir sýna fram á að staðan sé ekki góð. Ákvörðun um framhald Íslandsmótsins í fótbolta verði tekin á næstu dögum.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, sagði í viðtali við fréttastofu RÚV að hann ætli að öllum líkindum að leggja til hertar aðgerðir vegna fjölgunar COVID-19 smita. KSÍ greindi frá því í síðustu viku að mótið færi aftur af stað í nóvember ef að takmörkunum Almannavarna yrði aflétt. Það virðist nú ekki vera að fara gerast strax. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir stöðuna ekki góða.

„Þetta á bara eftir að koma í ljós hvernig þessar aðgerðir verða þá á næstunni og við bíðum bara og sjáum hvernig þær verða. Staðan er ekki góð það er ljóst á sóttvarnalækni, bara slæmar fréttir fyrir okkur öll, samfélagið í heild,“ segir Guðni í samtali við RÚV.

Spurður segir Guðni að KSÍ hafi ekki nú þegar beðið um undanþágu til að klára mótið eftir að nýjustu upplýsingar lágu fyrir. „Við vorum búin að biðja um undanþágu til æfinga í rauninni en nú er auðvitað staðan orðin verri og við verðum bara aðeins að bíða og sjá,“  segir Guðni. Hann er ekki tilbúinn að segja til um hvort reynt verði að klára mótin verði bannið framlengt.

Í viðtali við RÚV þegar KSÍ greindi frá því að reynt yrði að klára mótið sagði hann framhald Íslandsmótsins velta alfarið á því að takmarkanir heilbrigðsmálaráðherra verði afléttar eigi síðar en 3. nóvember. „Að því gefnu að við fáum að hefja æfingar og leik þá. Þá getum við klárað þetta. Ef það verður ekki þá er sú staða uppi að við getum illa klárað mótin," sagði Guðni þann 20. nóvember.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Gefa grænt ljós á æfingar meistaraflokka

Íslenski fótboltinn

KSÍ: Farsælast fyrir hreyfinguna í heild sinni