Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðaþjónustan fái 3,5 milljarða í tekjufallsstyrki

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ferðaþjónustufyrirtæki geta fengið allt að 7,2 milljóna króna styrk nái frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki fram að ganga. Áætlað er að þetta muni kosta ríkissjóð um 3,5 milljarð.

Um er að ræða styrk sem minni ferðaþjónustuaðilar, leiðsögumenn og fleiri geta sótt um vegna tekjufalls sem varð vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Samkvæmt mati sem ráðgjafafyrirtækið KPMG vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er áætlað að stuðningur við ferðaþjónustuna vegna þessa úrræðis geti numið um 3,5 milljarði króna.

Frumvarpið hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og er nú til umfjöllunar á Alþingi. 

Í tilkynningu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu segir að styrkirnir muni jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020. Hámarksstyrkur  fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu er 400.000. Hámarksstyrkur til hvers fyrirtækis nemur 1,2 milljónum króna á mánuði í þá 6 mánuði sem gert er ráð fyrir að úrræðið gildi, eða alls 7,2 milljónum króna fyrir hvert fyrirtæki.

Verði frumvarpið að lögum þurfa rekstraraðilar að uppfylla eftirtalin skilyrði: 

  • Að hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020.
  • Að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila.
  • Umsækjendur þurfa að auki að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.

Í tilkynningunni segir að tekjufallstyrkirnir geti orðið allt að 3,5 milljarðar króna ef öll fyrirtæki nýti sér þá og þessi upphæð miðast við að öll félög uppfylli skilyrðin um minnst 50% tekjufall fyrir nýtingu úrræðisins.

Í tilkynningunni segir að tekjufallsstyrkir  séu liðir í efnahagsaðgerðum og viðspyrnu ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Áður hafa verið kynntar 4,6 milljarða kr. aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar.

Leiðrétting kl. 13:53: Samkvæmt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu voru rangar upplýsingar í fréttatilkynningunni sem fréttin var byggð á. Í tilkynningunni var sagt að tímabil styrkjanna væri 18 mánuðir. Það er hins vegar 6 mánuðir. Þannig getur hámarksstyrkur til hvers fyrirtækis numið 1,2 milljónum króna á mánuði í þá 6 mánuði sem gert er ráð fyrir að úrræðið gildi, eða alls 7,2 milljónum króna.