Ekkert í boði annað en að lifa sorgina af

Mynd: Gullveig Teresa / Facebook

Ekkert í boði annað en að lifa sorgina af

28.10.2020 - 12:41

Höfundar

„Hvern gat ég verið reið við yfir að missa barnið mitt? Guð?“ segir Gullveig Teresa Sæmundsdóttir fyrrum ritstjóri sem missti dóttur sína aðeins tveggja ára gamla úr krabbameini og síðar bróður sinn fyrir aldur fram úr sama sjúkdómi. Þrátt fyrir miklar sorgir nýtur hún lífsins jákvæð og brosmild og segir að það sé skemmtilegt og gott. Gullveig er kaþólsk og skriftaði sem barn en trúir ekki á himnaríki lengur.

Gullveig Teresa Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Nýs lífs, er kaþólsk og alin upp við trúna. Þegar hún fæddist var til siðs að börn fengju dýrlinganafn svo móðir hennar valdi Gullveigarnafnið úr Völuspá og Teresunafnið sem dýrlingsnafn. Gullveig er 75 ára, hraust með áhuga á lífinu og tilverunni og lítur síður en svo á sig sem aldraða. „Ég er vakandi og hef verið mjög gæfusöm, þó sorgin hafi líka bankað upp á, svo ég lít ekki á mig sem gamla,“ segir hún. Hún skrifaði grein sem kom út í bókinni Raddir – annir og efri ár sem nýverið kom út á vegum Skruddu og er ætlað að miðla fróðleik um hvernig það er að eldast, hvernig lífi fólk lifir á efri árum og væntingar til lífsins. Hún settist niður með Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 og sagði sögu sína.

Erfið lífsreynsla er hluti af lífinu

Gullveig gegndi starfi ritstjóra tímaritsins Nýs lífs í næstum aldarfjórðung og segir að blaðið hafi breyst mikið og þróast í ritstjórnartíð hennar. Jónína Leósdóttir var lengst af ritstjórnarfulltrúi hennar og þær ákváðu í sameiningu að skrifa um efni á borð við þunglyndi og vöggudauða. Ekki voru allir vissir um þá stefnu. „Þá var sagt: Hvílíkt kerlingavæl!“ segir Gullveig. Fljótt kom þó í ljós að eftirspurnin var mikil. „Smátt og smátt sá maður að aðrir miðlar voru byrjaðir að taka þetta upp af því að vöggudauðinn og þunglyndið eru hluti af því að tilheyra því að vera manneskjur,“ segir Gullveig. „Ég held að blaðið hafi orðið manneskjulegra undir okkar stjórn.“ Viðtölin voru oftast við konur, en stundum karla, og gekk best ef það var talað um erfiða lífsreynslu. „Og er það ekki hluti af lífinu? Þú lærir hvernig aðrir komust í gegnum erfiðleika og lifðu þá af.“

Hún segir að á þessum tíma hafi mikil áhersla verið lögð á æsku og fegurð kvenna. Þær áttu að vera fyrirsætur, grannar og fínar. „Mér leiddist þetta óheyrilega,“ segir hún. „Mér finnst mjög gaman að hitta sumar fyrirsæturnar núna sem eru orðnar framakonur í þjóðfélaginu.“

„Hvar heldurðu að þú fáir vinnu?“

Svo urðu eigendaskipti hjá fyrirtækinu og Gullveigu hugnaðist ekki stefna nýrra stjórnenda. Henni er líka minnisstæð athugsasemd ungs manns sem tók sæti í nýju stjórninni, athugasemd sem Gullveig mun líklega aldrei gleyma. „Þegar ég sagði upp rúmlega sextug sagði hann: Hvar heldurðu að þú fáir vinnu?“ Þessi spurning gerði hana algjörlega sannfærða um að það hefði verið gæfuspor að segja upp starfinu. En þrátt fyrir litla trú unga mannsins fékk hún fjölda verkefna eftir að hún hætti og er enn að. „Ég er þakklát forsjóninni fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun því ég er ekki viss um að mér hefði liðið vel með að láta segja mér upp.“

Líf og fjör á sjö systkina heimili

Æskuheimili Gullveigar var gott og farsælt. Hún ólst upp ásamt sex systkinum og segir að það hafi verið líf og fjör á bænum. Móðir hennar Sigurveig Guðmundsdóttir var kennari og faðir hennar Sæmundur Jóhannesson var sjómaður sem vann síðar í áburðarverksmiðju. Sigurveig var mikill skörungur, formaður Kvenréttindafélagsins og ein af stofnendum Bandalags kvenna í Hafnarfirði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ritaði árið 1991 ævisögu Sigurveigar sem heitir Þegar sálin fer á kreik: minningar Sigurveigar Guðmundsdóttur.

„Hver segir að það sé ekkert verra en að missa barnið sitt?“

Fyrsta stóra sorgin í lífi Gullveigar var þegar hún missti barnið sitt, litla fallega stúlku sem var nefnd Ingibjörg Hrund , talaði mikið og var sterkur persónuleiki. Hún fæddist 1975 og var aðeins tveggja ára þegar foreldrarnir tóku eftir því hvað hún var óróleg. Þau fóru með hana til læknis sem sagðist telja að hún væri með eyrnabólgu eins og mörg börn fá. Eftir rannsóknir kom í ljós að barnið var með ólæknandi krabbamein. Þremur mánuðum síðar var hún látin. „Auðvitað hefur þessi gífurlega lífsreynsla fylgt mér alla tíð eins og gleðin og farsældin sem ég hef sannarlega líka notið.“

Þó hún hafi ekki átt auðvelt með að sjá það þá komst hún að því að það væri ekkert annað í boði en að halda áfram að lifa. „Það tók mig mörg ár að hætta að vera reið en hvern gat ég verið reið við yfir að missa barnið mitt? Guð? Smátt og smátt komst ég að því að það þýddi ekkert,“ segir hún. Hún telur heldur ekki rétt að fullyrða að það sé ekkert verra í heiminum en að missa barnið sitt því það sé ómögulegt að mæla sorgina. „Hver segir að það sé ekkert verra? Það veit það enginn. Ég held þú getir aldrei lagt mælikvarða á hvað er vont, hvað er verra og hvað er verst.“

Sorgin sameiginlegur tónn í lífi hjónanna

Með tímanum hætti Gullveig að vera reið og lifði með sorginni. „Ég varð eldri, þroskaðari og lærði að gleðjast yfir svo mörgu sem ég naut. Ég átti mjög gott barn fyrir, góðan eiginmann, góða menntun, vinnu, vini, fjölskyldu og foreldra. Ég hafði svo margt,“ segir hún. Gullveig og eiginmaður hennar, Steinar J. Lúðvíksson, hafa mætt brimi og boðaföllum lífsins hönd í hönd. „Við vorum fyrst ekki samstíga í sorginni en hún var sameiginlegur tónn í lífi okkar,“ segir Gullveig. „Við vorum svo ung, ég var þrítug og á þessum tíma vann hann mjög mikið. Við erum mjög samstíga í dag og lifum í sama takti,“ segir hún. „Þegar þú ert svona ung áttu ekki orð eða reynslu til að ræða þessi mál, það er of erfitt. En við lifðum þetta af.“

„Sorg konunnar og sona hans er meiri“

Bróðir Gullveigar lést líka fyrir aldur fram úr krabbameini. Hann var aðeins 42 ára og skildi eftir sig þrjú börn, þá var yngsta barnið hans aðeins þriggja ára. Gullveig og tvær systur hennar voru hjá bróður sínum þegar hann skildi við og þau fóru beint til foreldra sinna um nóttina til að vera hjá þeim og færa þeim fregnirnar. „Ég gleymi aldrei orðum mömmu,“ rifjar Gullveig upp. „Mamma sagði: Ég syrgi Jóa minn en sorg konunnar hans og sona er enn meiri. Því þau eiga eftir að lifa við þetta svo lengi. Það er staðreynd.“

Skriftaði tíu ára en trúir ekki lengur á himnaríki

Sjálf hugsar Gullveig stundum um dauðann og veltir því fyrir sér hvort eitthvað taki við eftir hann. Í kaþólsku uppeldi sínu lærði hún um hreinsunareldinn og aðeins tíu ára fór hún að ganga reglulega til skrifta. „Hvað hafði ég að skrifta tíu ára? Ég barði bróður minn? Ég stal tíkalli þegar ég fór í mjólkurbúðina því mig langaði svo mikið í karamellu?“ spyr hún kímin. En í dag efast hún um það sem kaþólska trúin kenndi henni. „Smátt og smátt hef ég komist á þá skoðun að það er ekkert sem heitir hreinsunareldur og ekkert sem heitir himnaríki heldur,“ segir Gullveig. Fyrir henni kemur í raun aðeins tvennt til greina. „Að þú uppskerir eins og þú hefur sáð og ef það er líf eftir dauðann, er þá nokkuð að óttast ef þú hefur verið þokkaleg manneskja?“ Hinn möguleikinn er sá að það taki ekkert við. „Og er þá nokkuð að óttast?“ Hún viðurkennir sposk að kaþólsku prestarnir og nunnurnar sem hún hefur þekkt í gegnum tíðina væru ekki sammála sér.

Trúir á það góða í lífinu og tilverunni

Hún er ekki hrædd við dauðann sjálf og telur sig vera hugrakka með ívafi af varkárni og raunæi. „Njóttu lífsins, taktu þátt í því sem er skynsamlegt en ekki vera óvarkár,“ segir Gullveig. Hún lifir lífinu til fulls, nýtur samverustunda með syninum og barnabörnunum, fer í golf, fær sér rauðvín og á ljúfar stundir með eiginmanninum. „Ég er jákvæð og brosmild og ef ég trúi einhverju er það það góða í lífinu og tilverunni. Ég veit það gerist ýmislegt í lífi allra, hlutir sem þú ræður ekkert við, en það er svo oft í þínum eigin höndum hvernig það gerist.“ Með þessu hugarfari hefur Gullveigu tekist að takast á við andlát dóttur sinnar, bróður síns, systur sinnar og vinkonu. „Ég lifði það af. Það var í mínum höndum. Það var ekkert annað í boði og enginn annar sem gerði það fyrir mig,“ segir Gullveig að lokum. „Lífið er skemmtilegt og gott.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Gullveigu Teresu Sæmundsdóttur í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

„Þig grunar ekki hver, en þetta er maðurinn þinn“

Menningarefni

Gleymir ekki svipnum á mömmu að dansa á þingtröppunum

Leiklist

Hélt hún yrði alltaf ein eftir skilnaðinn