Chelsea fór á kostum - Auðveldur sigur PSG

epa08781585 Moise Kean (R) of PSG celebrates after scoring the 2-0 lead during the UEFA Champions League group H soccer match between Istanbul Basaksehir and Paris Saint-Germain in Istanbul, Turkey, 28 October 2020.  EPA-EFE/Tolga Bozoglu / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Chelsea fór á kostum - Auðveldur sigur PSG

28.10.2020 - 20:08
Tveimur leikjum er þegar lokið í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu en leikið er í fjórum riðlum í kvöld. Chelsea og PSG fóru auðveldlega í gegnum sína andstæðinga.

Chelsea heimsótti FC Krasnodar í Rússlandi. Gestirnir fengu vítaspyrnu á 13. mínútu. Jorghino tók vítið en setti boltann í stöngina og áfram var markalaust. Á 37. mínútu náði Chelsea svo að skora, Callum Hudson-Odoi skaut að marki og Matvey Safonov sló boltann í netið og 1-0 stóð í leikhléi.

Á 75. mínútu fékk Chelsea svo aðra vítaspyrnu, að þessu sinni eftir hendi í vítateignum. Nú var það Timo Werner sem fór á vítapunktinn og hann skoraði og kom Chelsea í 2-0. Fjórum mínútum eftir mark Werner kom svo þriðja markið. Hakim Ziyech skoraði og er þetta fyrsta markið sem hann skorar fyrir Chelsea eftir félagaskiptin frá Ajax í sumar. Enn var ekki öllu lokið og fjórða markið kom á lokamínútunni. Christian Pulisic skoraði það og Chelsea vann öruggan 4-0 sigur í Krasnodar.

Í Tyrklandi mættust heimamenn í Istanbul Basekeshir og Paris Saint-Germain. Fátt var um fína drætti í fyrri hálfleik en Parísar liðið þó talsvert betri aðilinn í leiknum. Á 64. mínútu brotnaði svo loksins ísinn þegar Moise Kean kom gestunum yfir. Hann var svo aftur á ferðinni á 79. mínútu og tryggði PSG 2-0 sigur í Tyrklandi.