Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjarni svarar ÖBÍ en viðrar áhyggjur af stöðunni

28.10.2020 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist skilja ákall Öryrkjabandalags Íslands um að hækka bætur. Hann segir auglýsingaherferð bandalagsins þó missa marks.

Auglýsing frá ÖBÍ hefur verið sýnd í sjónvarpinu að undanförnu þar sem má segja að sé skotið á Bjarna, og vísað í kosningaherferð Sjálfstæðisflokksins þar sem hann var að baka köku. Í auglýsingunni er kveðið á um að öryrkjar fái sífellt minni sneið af kökunni.

„Ég heyri ákall Öryrkjabandalagsins um að hækka bætur enn frekar. Myndband þeirra er hins vegar misheppnað, þótt kakan sé falleg eftirmynd af þeirri sem ég gerði. Það dugar ekki til, því það er rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið. Kakan hefur stækkað og almannatryggingar hafa fengið stærri sneið af stækkandi köku,“ skrifar Bjarni á Facebook.

Hann segir þar að fjórir milljarðar hafi verið teknir til hliðar til að styrkja þessi kerfi enn frekar á kjörtímabilinu og um sé að ræða varanlega fjögurra milljarða króna hækkun á almannatryggingum. Bjarni lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í gær þar sem kom fram að framlög il almannatrygginga, að frátöldum atvinnuleysisbótum, hefðu nær tvöfaldast frá árinu 2013.

Hann segir það þó mikið áhyggjuefni að á örfáum árum hafi þeim sem eru á örorkubótum eða endurhæfingarlífeyri fjölgað um 4.300 manns.

„Okkur er að mistakast að ná utan um þennan vanda og verðum að bregðast við,“ skrifar Bjarni.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot