Ætla að synda í köldum Þistilfirðinum í allan vetur

28.10.2020 - 22:14
Hálfgert sjósundæði hefur gripið um sig á Þórshöfn og hópur kvenna þar hefur farið reglulega í sjóinn í allt haust. Þær segja að allt, sem þeim hafi verið sagt um hve sjósund er hollt og hressandi, hafi staðist.

Við fylgdumst með því þegar fríður flokkur kvenna skellti sér í sjósund á Brekknasandi, rétt sunnan við þorpið á Þórshöfn. Og það var stutt í frostið, rétt um eins stigs hiti, en það skiptir ekki máli þegar þessar hressu konur ætla sér í sjóinn.

„Við ákváðum bara að láta verða af þessu“

„Þetta er bara búið að vera eitthvað sem hefur blundað í mörgum okkar lengi og við ákváðum bara að láta verða af þessu,“ segir Kristín Heimisdóttir, ein þeirra sem hófu þetta sundátak. „Við vitum náttúrulega að þetta á að vera allra meina bót og við urðum bara að prófa það á okkur sjálfum.“
„Og hvernig hefur verið?
„Bara geggjað! Þú sérð að hér erum við í einni gráðu, bara alveg helsjúkar í að vera hérna.“

Um 20 konur á Þórshöfn í sundhópnum

Það eru um tuttugu konur í sundhópnum, mæta stundum allar og stundum færri eins og í þetta sinn. „Stundum eru þrjár, stundum erum við tólf, eða tíu, stundum er farið í tveimur hópum sama daginn. Fer eftir því hvað við erum að vinna lengi og annað,“ segir Hilma Steinarsdóttir.

Lærðu á fyrirlestri að þær eru allt of lengi í sjónum

En áhuginn er það mikill að þær fengu sérstakan fyrirlestur um sjósund og Heiðrún Óladóttir segir þær hafa lært þar ýmislegt gagnlegt. „Sko....aðallega það, við erum búnar að vera að stunda þetta núna í tvo mánuði og við erum alltaf of lengi í sjónum! Þegar við erum í hálftíma, það er svolítið langt, þannig að við ákváðum að vera bara í svona fimm mínútur núna.“

„Manni líður alveg ótrúlega vel“

Og við Þistilfjörð er engin ylströnd eða heitir pottar, bara ískaldur fjörðurinn. Og Hilma viðurkennir að þeim sé kalt. „Já, en svona gott kalt. Það er svo skrýtið, ég hefði aldrei getað trúað þessu hvað þetta hefur góð áhrif. Manni líður alveg ótrúlega vel.“

Ætla að stunda sjósund í allan vetur

Kristín  segir klárt að þær ætli að stunda sjósund í allan vetur. „Það væri gaman að fá þig aftur í heimsókn í desember og aftur í janúar og febrúar. Já við ætlum að halda þetta út. Við ætlum kannski ekki að þurfa að brjóta klakann af til að fara ofaní, en við ætlum að reyna að fara í öllum hitastigum.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV