„Við setjum þetta til hliðar og komum okkur á EM“

Mynd: EPA-EFE / TT NEWS AGENCY

„Við setjum þetta til hliðar og komum okkur á EM“

27.10.2020 - 19:59
Sara Björk Gunnarsdóttir varð í kvöld leikjahæsti fótboltamaður Íslandssögunnar þegar Svíþjóð vann Ísland 2-0. Þetta var 134. landsleikur Söru sem var að vonum svekkt eftir tapið.

„Erfiður leikur í dag, Svíarnir voru sterkar þær voru að vinna öll návígi, þær voru undan í alla bolta og við vorum hreinlega eftir á fannst mér. Eins og ég segi er ég ótrúlega svekkt. Ekki góður leikur hjá okkur, mér fannst við ekki ná takt í leiknum og Svíarnir verðskulda sigur fannst mér,“ segir Sara Björk eftir leikinn.

Fyrsta markið kom á 25. mínútu en það var Sofia Jakobsson sem kom Svíum í forystu. „Það var svekkjandi, mér fannst við detta svolítið niður. Í fyrri leiknum risum við upp og héldum áfram að sækja á þær. Þetta var svolítið opið áður en markið kom en ég veit ekki, við duttum niður eftir markið og eftir að við fengum seinna markið á okkur þá fannst mér við bara ekki komast í takt við leikinn,“ segir Sara.

Ísland á tvo leiki eftir í riðlinum og getur tryggt sér sæti á EM sem eitt af liðunum með bestan árangur í öðru sæti. „Það þarf bara að setja þennan leik til hliðar, það er ekki langt í næstu leiki og við þurfum að eiga betri leik og klára þessa tvo leiki. Við setjum þetta til hliðar og komum okkur á EM og vinnum þessa tvo leiki,“ segir Sara Björk.

Viðtalið við Söru má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Myndskeið: Mörk Svíþjóðar gegn Íslandi

Fótbolti

Svíþjóð hafði betur á heimavelli gegn Íslandi

Fótbolti

Sara Björk slær leikjametið í kvöld