Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verðugir viðtakendur bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Mynd: norden.org / norden.org

Verðugir viðtakendur bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

27.10.2020 - 23:29

Höfundar

Finnar tóku bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár, elstu verðlaun Norðurlandaráðs og þau yngstu, Barna - og unglingabókmenntaverðlaunin. Verðlaunin hlutu Monika Fagerholm fyrir hrífandi en jafnframt skekjandi skáldsögu sína Vem dödade bambi og hins vegar finnska myndgerðarkonan Jenny Lucander og sænski bókmenntaritstjórinn og bóksasafnsmaðurinn Jens Mattsson fyrir hyllingu lífsins og barnsins í myndabókinni Vi er lejon.

Skáldsagan Vem dödade bambi? („Hver drap bamba?“) eftir Moniku Fagerholm ólgar af orku og fáguðum siðferðisboðskap, segir í greinagerð dómnefndar Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Hópnauðgun er framin af unglingum úr efri stétt hins vel stæða Villastaden í útjaðri Helsingfors. Fagerholm beinir sjónum ekki að þolanda nauðgunarinnar heldur að gerendunum og atburðarásinni fyrir og eftir nauðgunina. Einkum verða tilraunir fullorðna fólksins til að breiða yfir orðinn hlut að framúrskarandi beittri samfélagsádeilu í meðförum höfundar. Tungumálið veltur fram, fullt af krafti og átakanlegum töfrum. Í hinum þétta vef samtala, stefja og vísana í dægurmenningu býr vægðarlaus sannleikur sem persónurnar fá ekki varist. Gusten Grippe, sá eini af gerendunum sem gengst við sekt sinni, myndar mótvægi við hinn myrka sogkraft herbergisins þar sem árásin átti sér stað. Löngun eftir hinu ósnerta er stillt upp gegn yfirborðsmennskunni og metorðaþorstanum sem einkennir samtíma okkar – lífsnauðsynlegri löngun sem er miðlað í formi svipmynda af ást og vináttu, stunda sem má snúa aftur til og sækja styrk í.

Í þættinum Orð um bækur var fjallað um öll verkin sem tilnefnd voru til Bókmenntaverðalauna Norðurlandaráðs. 

Vem dödade bambi er ljóðræn en brútal margradda skáldsaga sem fer fram og aftur í tíma, full af stefjum og vísunum í tíðaranda og popkúltúr með undirliggjandi sterkri ásökun í garð feðraveldisins.

Monika Fagerholm einn virtasti rithöfundur Finnlands sem skrifar á sænsku og margverðlaunuð. Monika dregur gjarnan í bókum sínum upp margbrotnar myndir af manneskjum að berjast í  ósýnilegu neti samfélagsaðstæðna sem oft ráða meiru um það hvernig hlutirnir æxlast en draumar og vilji einstaklingsins. Fólk reynir að skipta um stöðu í samfélaginu en það lukkast aldrei, sérstakleg ekki hjá konum, eins og hin margverðlaunaða Monika Fagerholm hefur oft skrifað um í skáldsögum.

Skáldsagan sem nú er tilnefnd Vem dödade Bambi? - Hver drap bamba eða hver drap sakleysið er aðeins rúmlega tvöhundruð blaðsíður en þeim mun ákafari og þéttari er myndin sem dregin er upp af eitraðri  karlmennsku í kaptalisma síðustu fimmtíu ára eða svo.

Það er Gusten, dugmikill fasteignasali, sem segir söguna að mestu. Af einhverjum ástæðum er hann aftur kominn heim í gamla einbýlishúsahverfið við Kallsvatnið þar hann ólst upp, átti ágæta bernsku og unglingsár, ekki síst fyrir vináttu við rétta fólkið. En svo springur allt í loft upp, unglingagengið gengur of langt í að fylgja foringja sínum, hinum forríka arkitektssyni Nathan. Kærastan hefur nefnilega yfirgefið hann og fyrir það þarf að refsa. Í blöðunum birtast á næstu dögum fréttir um voðalegt ofbeldisverk og nauðgun í kjallara húss arktitektsins Albinusar Häggerts.

Fórnarlambið fær ekki mikið rými í þessari skáldsögu heldur hverfur úr sögunni og deyr af völdum eiturlyfja löngu áður en sagan sem Monika Fagerholm segir í skáldsögunni Vem dödade bambi hefst. Sú saga fjallar nefnilega um gerendurna, einkum um það hvernig þeir hver fyrir sig reyna að  þurrka hinn hrottalega atburð út úr minni sínu og njóta til þess framan af dyggilegrar aðstoðar föðurins, áðurnefnds arkitekts. Sumum tekst að gleyma, útiloka sekt sína öðrum ekki. Hér er þó ekki um persónulegar örlagasögur að ræða. Frásögnin er fyrst og fremst knúin áfram af reiði í garð feðraveldisins og þess samfélags augmagns sem það hefur skapað eða var það öfugt?

Vem dödade bambi er brútal og margradda skáldsaga sem fer fram og aftur í tíma, full af stefjum og vísunum í tíðaranda og popkúltúr með undirliggjandi þungri ásökun í garð feðraveldisins og samfélagslegra formgerða þess sem leyfa að nauðgun eigi sér stað og afneita afleiðingum slíks ofbeldis, alls ofbeldis eða með orðum Annelise, móður aðalgerandans: „Nú snúum við við blaði og ef við gerum það nógu oft höfum við einn góðan veðurdag snúið svo mörgum blöðum að ekkert af þessu hefur gerst.“ 

Þakkarræða Moniku Fagerholm var ekki síður tilfinningarík og pólitísk en hin verðlaunaða skáldsaga, Vem dödade bambi? en einnig mjög persónuleg og má hér heyra og sjá á heimasíðu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Mynd: norden.org / norden.org

 

Verðlaunabókin í ár stendur staðfastlega með barninu og sjónarhorn barnsins skín í gegn í bæði texta og myndskreytingum, segir í rökstuðningi dómnefndar um að veita hinni einstöku myndabók Vi er lajon eftir Jens Mattson og Jenny Lycander Barna - og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2020.

Leikurinn hefur heilunarmátt þegar hið þungbærasta af öllu dynur á: lítið barn veikist af banvænum sjúkdómi. Þykjustu-hitabeltisgresja með líflegri, rauðgulri litadýrð heldur innreið sína í dauflegan heim sjúkrahússins. Fjörlegur leikurinn rúmar alla þá depurð og áhyggjur sem sjúkdómurinn hefur leyst úr læðingi. Skrautleg smáatriði og litagleði í myndskreytingum bókarinnar eiga í kotrosknu samtali við þá norrænu myndabókahefð sem við þekkjum úr verkum Ingrid Vang Nyman og Tove Jansson, en tjáningarmátinn er þó einstakur og þrunginn frumleika í sjónarhorni, aðferð, litavali og persónulýsingum. Textinn styður við myndirnar með stílhreinum hætti og áleitin frásögnin í fyrstu persónu dregur dám af ýkjukenndum leiknum. Lýsingarnar á umhyggju foreldranna og örvæntingu geyma hina sáru og kyrrlátu þætti verksins. Með bræðraástinni og hugrekkinu sem einkennir sögulokin er ýjað að því að nýtt Nangijala fyrirfinnist. Vi är lajon! (Við erum læón!) er heillandi verk fyrir lesendur á öllum aldri sem ber vitni um norrænt samstarf af bestu gerð.

Í þættinum Orð um bækur fjallaði Halla Þórlaug Óskarsdóttir um bókina Vi er lajon og sagði meðal annar.

Í bókinni Vi är Lajon segir frá tveimur bræðrum sem þurfa að takast á við líf sitt í skugga þess stóri bróðir veikist af alvarlegum og ólæknandi sjúkdómi. Í gegnum sameiginlegan leikjaheim bræðranna er því líst hvernig litli bróðir berst við að skilja alvarleika sjúkdómsins sem læst hefur klóm sínum í bróðurinn. Leikjaheimurinn sem og myndheimur bókarinnar byggir á dýrum og veiðum úti á hitabeltisgresjunni. Á gresjunni eru auðvitað ljón sem börn þekkja kannski ekki síst úr Disney kvikmyndinni Lyon King og til þess vísar ákveðin afbökun eða bernskun á orðinu ljón á sænskunni sem er frummál bókarinnar.

„Sagan sem sögð er í bókinni er Vi är Lajon er falleg og hún er einföld, hún er lika flókin, hún er djúp og hún er rosalega sorgleg eða kannski er það túlkunaratriði,“ segir Halla Þórlaug Óskarsdóttir segir í umfjöllun sinni. „Bókin er marglaga; sagan er tvískipt, það er að segja sjónarhornið. Annars vegar er sagan sem foreldrar lesa og hins vegar sagan sem börn meðtaka.“

Það er litli bróðir sem segir söguna og fullorðnir lesa auðvitað öðruvísi í orð barna en börn. Sagan sem litlibróðir segir um veiðiferðir þeirra bræðra úti á hitabeltisgresjunni eiga greiðari aðgang að barnshuganum á með hinir fullorðnu eru meira uppteknir af alvarlegum veikindum stóra bróður. Þá bæta myndir Jenny Lucander enn lögum við frásögnina með því til dæmis að dempa eða styrkja litina eftir því hvað um er fjallað. Þetta eru línuteikningar en uppfullar af smáatriðum sem gef til kynna hvernig andrúmsloftið er hverju sinni. Oft er persónum og aðstæðum bætt inn á myndirnar án þess að slíkt eigi sér samsvaranir í textanum en lesandinn veit að er þarna einhvers staðar eins og til dæmis starfsfólk á sjúkrahúsi eða foreldrarnir við einhverja iðju án þess að frá því sé sagt í því ævintýri sem litli bróðir segir frá um líf þeirra bræðra.

„Umfjöllunarefni þessarar bókar er bannhelgi dauðans, eða „óttann og flóttann,“ eins og Halla Þórlaug orðar það, „Dauðann getum við nefnilega ekki flúið, þótt það sé misjafnt hvernig og hvenær hann verður á vegi okkar (...) Bókin Vi är Lajon fjallar sannarlega um erfið málefni en samt er hún ævintýrabók; hún fjallar um raunveruleikann en samt fjallar hún líka um ímyndunaraflið, sem sumir myndu kannski kalla veruleikaflótta. (...) Í þessari bók eru bræðurnir ljón og þeir eru ekki á flótta, þeir eru á veiðum úti í náttúrunni og náttúran er upp á líf og dauða.“

Það er óljóst hvernig endalok veiða bræðranna verða, hvort þeir fari aftur saman á veiðar eða hvort leiðir þeirra eigi eftir að skilja endanlega. Lokin eru í höndum eða öllu heldur huga lesandans enda bókin Vi är Lajon dæmi um bók „sem sannarlega dregur fram töfrana sem búa í barnabókmenntum og þá brú sem þær geta smíðað milli heimsmynda kynslóðanna.“