Skáldsagan Vem dödade bambi? („Hver drap bamba?“) eftir Moniku Fagerholm ólgar af orku og fáguðum siðferðisboðskap, segir í greinagerð dómnefndar Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Hópnauðgun er framin af unglingum úr efri stétt hins vel stæða Villastaden í útjaðri Helsingfors. Fagerholm beinir sjónum ekki að þolanda nauðgunarinnar heldur að gerendunum og atburðarásinni fyrir og eftir nauðgunina. Einkum verða tilraunir fullorðna fólksins til að breiða yfir orðinn hlut að framúrskarandi beittri samfélagsádeilu í meðförum höfundar. Tungumálið veltur fram, fullt af krafti og átakanlegum töfrum. Í hinum þétta vef samtala, stefja og vísana í dægurmenningu býr vægðarlaus sannleikur sem persónurnar fá ekki varist. Gusten Grippe, sá eini af gerendunum sem gengst við sekt sinni, myndar mótvægi við hinn myrka sogkraft herbergisins þar sem árásin átti sér stað. Löngun eftir hinu ósnerta er stillt upp gegn yfirborðsmennskunni og metorðaþorstanum sem einkennir samtíma okkar – lífsnauðsynlegri löngun sem er miðlað í formi svipmynda af ást og vináttu, stunda sem má snúa aftur til og sækja styrk í.
Í þættinum Orð um bækur var fjallað um öll verkin sem tilnefnd voru til Bókmenntaverðalauna Norðurlandaráðs.
Vem dödade bambi er ljóðræn en brútal margradda skáldsaga sem fer fram og aftur í tíma, full af stefjum og vísunum í tíðaranda og popkúltúr með undirliggjandi sterkri ásökun í garð feðraveldisins.
Monika Fagerholm einn virtasti rithöfundur Finnlands sem skrifar á sænsku og margverðlaunuð. Monika dregur gjarnan í bókum sínum upp margbrotnar myndir af manneskjum að berjast í ósýnilegu neti samfélagsaðstæðna sem oft ráða meiru um það hvernig hlutirnir æxlast en draumar og vilji einstaklingsins. Fólk reynir að skipta um stöðu í samfélaginu en það lukkast aldrei, sérstakleg ekki hjá konum, eins og hin margverðlaunaða Monika Fagerholm hefur oft skrifað um í skáldsögum.
Skáldsagan sem nú er tilnefnd Vem dödade Bambi? - Hver drap bamba eða hver drap sakleysið er aðeins rúmlega tvöhundruð blaðsíður en þeim mun ákafari og þéttari er myndin sem dregin er upp af eitraðri karlmennsku í kaptalisma síðustu fimmtíu ára eða svo.
Það er Gusten, dugmikill fasteignasali, sem segir söguna að mestu. Af einhverjum ástæðum er hann aftur kominn heim í gamla einbýlishúsahverfið við Kallsvatnið þar hann ólst upp, átti ágæta bernsku og unglingsár, ekki síst fyrir vináttu við rétta fólkið. En svo springur allt í loft upp, unglingagengið gengur of langt í að fylgja foringja sínum, hinum forríka arkitektssyni Nathan. Kærastan hefur nefnilega yfirgefið hann og fyrir það þarf að refsa. Í blöðunum birtast á næstu dögum fréttir um voðalegt ofbeldisverk og nauðgun í kjallara húss arktitektsins Albinusar Häggerts.
Fórnarlambið fær ekki mikið rými í þessari skáldsögu heldur hverfur úr sögunni og deyr af völdum eiturlyfja löngu áður en sagan sem Monika Fagerholm segir í skáldsögunni Vem dödade bambi hefst. Sú saga fjallar nefnilega um gerendurna, einkum um það hvernig þeir hver fyrir sig reyna að þurrka hinn hrottalega atburð út úr minni sínu og njóta til þess framan af dyggilegrar aðstoðar föðurins, áðurnefnds arkitekts. Sumum tekst að gleyma, útiloka sekt sína öðrum ekki. Hér er þó ekki um persónulegar örlagasögur að ræða. Frásögnin er fyrst og fremst knúin áfram af reiði í garð feðraveldisins og þess samfélags augmagns sem það hefur skapað eða var það öfugt?
Vem dödade bambi er brútal og margradda skáldsaga sem fer fram og aftur í tíma, full af stefjum og vísunum í tíðaranda og popkúltúr með undirliggjandi þungri ásökun í garð feðraveldisins og samfélagslegra formgerða þess sem leyfa að nauðgun eigi sér stað og afneita afleiðingum slíks ofbeldis, alls ofbeldis eða með orðum Annelise, móður aðalgerandans: „Nú snúum við við blaði og ef við gerum það nógu oft höfum við einn góðan veðurdag snúið svo mörgum blöðum að ekkert af þessu hefur gerst.“
Þakkarræða Moniku Fagerholm var ekki síður tilfinningarík og pólitísk en hin verðlaunaða skáldsaga, Vem dödade bambi? en einnig mjög persónuleg og má hér heyra og sjá á heimasíðu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.