Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tvö smit utan sóttkvíar á Akureyri

27.10.2020 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
4 ný smit hafa bæst við á Norðurlandi eystra frá því í gær. Tvö voru í sóttkví. Sex dvelja í farsóttarhúsi.

Tvö smit greindust utan sóttkvíar á Norðurlandi eystra í gær. Annað var leikmaður kvennaliðs Þórs/KA í fótbolta og hitt starfsmaður í frístund hjá Síðuskóla. Ekki er vitað um uppruna þeirra smita að svo stöddu. 

„Við erum rólegri en þetta er mjög fljótt að gerast og miðað við hvernig gærdagurinn var héldum við að við værum að fara að sjá í land og svo fáum við þessi smit í dag og það er alltaf vont að fá smit utan sóttkvíar, maður veit ekki hvert þau leiða og við erum ennþá að fá smit í tengslum vð aðila sem eru kannski 7-10 daga gömul samskipti.“ segir Hermann Karlsson, hjá aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi eystra.

Nú eru 45 í einangrun á Norðurlandi eystra og 70 í sóttkví. Fjórir losnuðu úr einangrun í morgun. 6 dvelja í farsóttarhúsi, fjórir í einangrun og tveir í sóttkví. 

Hermann segir þau reglulega fá tilkynningar um að fólk sem eigi að vera í sóttkví eða í einangrun sé á þvælingi. Þau skoði þau tilvik, stundum eigi þau við rök að styðjast en stundum hafi einstaklingarnir verið lausir úr sóttkví eða einangrun. Hann hvetur fólk til að halda áfram að tilkynna allan grun. Hann veit ekki til þess að það sé neinn vinnustaður lokaður núna vegna COVID, fyrir utan frístund í Síðuskóla.