Sýslumaður fer fram á gjaldþrotaskipti Viljans

27.10.2020 - 21:51
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Sýslumaðurinn á Vesturlandi hefur krafist þess að Útgáfufélag Viljans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Krafan verður að óbreyttu tekin fyrir í Héraðsdómi Vesturlands í Borgarnesi um miðjan næsta mánuð.

Björn Ingi Hrafnsson rekur vefmiðilinn og ritstýrir honum en Fréttablaðið greindi fyrst frá kröfu sýslumannsins. Björn Ingi vakti mikla athygli á upplýsingafundum Almannavarna og mætti hann á flestalla fundina og var óhræddur við að bera upp spurningar. Hann var áður útgefandi DV og Pressunnar.

Í færslu á Facebook síðu sinni segir Björn að engin krafa hafi borist um gjaldþrotaskipti. „Ég las þetta fyrst í kvöld og brá nokkuð í brún. Um er að ræða lítið útgáfufélag með litlar skuldir og einn starfsmann og þegar í kvöld hefur verið farið fram á afturköllun þessarar beiðni sem gengið verður frá í vikunni,“ skrifar hann.

„Viljinn er því sem betur fer ekki á leiðinni í gjaldþrot. Það þarf hins vegar ekki mikinn sérfræðing til að átta sig á því að hart er í ári hjá mörgum fyrirtækjum hér á landi, ekki síst fjölmiðlum og auglýsingatekjur litlar í þessu furðulega ástandi. Ég hef staðið samviskusamlega vaktina í fréttum um COVID-19 án nokkurra opinberra styrkja og er bara stoltur af því,“ segir Björn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV