Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Spennan eykst þegar vika er til forsetakosninga vestra

epa08771801 Voters enter The Wiltern as California in-person early voting for the US Presidential election begins, in Los Angeles, California, USA, 24 October 2020. US President Donald J. Trump will face Democratic candidate Joe Biden in the US elections on 03 November.  EPA-EFE/KYLE GRILLOT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti kann að fá aukinn byr í seglin eftir staðfestingu öldungadeildar Bandaríkjaþings á Amy Coney Barrett sem hæstaréttardómara.

Þegar rúm vika er til forsetakosninga er enn óljóst hvort það dugi til að snúa fylgi kjósenda forsetanum í vil.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sett mark sitt á kosningabaráttuna vestra, tilfellum fjölgar dag frá degi. Yfir 225 þúsund eru látin af völdum sjúkdómsins, efnahagslífið er í alvarlegum kröggum og dregið hefur úr vonum um að gríðarmikill björgunarpakki verði samþykktur í fulltrúadeild þingsins fyrir kosningar.

Varaforsetinn fyrrverandi, Joe Biden er enn með forskot á forsetann Trump í skoðanakönnunum. Það gildir jafnt á landsvísu og í nokkrum sveifluríkjanna svokölluðu, þar á meðal í Pennsylvaníu.

Frambjóðendur fara víða fram að kosningum

Trump lætur þó engan bilbug á sér finna og fullyrti á þremur kosningafundum í Pennsylvaníu í gær að faraldurinn væri á undanhaldi. Hann lét gremju sína í ljós á Twitter þar sem hann kvartaði undan sífelldri fjölmiðlaumfjöllun um „COVID, COVID, COVID, alveg fram að kosningum.“

Hann hefur ferðast víða og haldið fjölda kosningafunda meðan Joe Biden hefur farið sér að engu óðslega. Hann ætlar þó að slá í klárinn og halda til Georgíuríkis síðar í dag. Í kjölfarið stefnir Biden á Flórída, Iowa og Wisconsin sem eru meðal þeirra ríkja sem barátta frambjóðendanna stendur helst um.

Biden heldur uppteknum hætti með yfirlýsingum um að Trump sé „ ... síst allra forseta, síst allra manneskja, til þess fallinn að leiða okkur gegnum heimsfaraldurinn“ og bætir við að greina megi uppgjöf hjá forsetanum sem vonaði að veiran léti sig einfaldlega hverfa.

Metfjöldi hefur kosið utan kjörfundar

Um 64 milljónir höfðu greitt atvæði utan kjörfundar í gær. Það er sex milljónum meira en í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Kjósendur virðast átta sig á heilsufarshættunni sem fylgir því að mæta á þéttsetna kjörstaði auk þess sem greina má að margumrætt mikilvægi yfirstandandi forsetakosninga blási mörgum baráttuanda í brjóst.

Gögn sýna að það séu frekar stuðningsmenn Demókrataflokksins sem hafa greitt atkvæði utan kjörfundar. Því hafa forystumenn Repúblikanaflokksins tekið að gera sér grein fyrir að áframhaldandi setu Trumps á forsetastóli kunni að vera ógnað.

Þeirra á meðal er leiðtogi þeirra í öldungadeildinni Mitch McConnell. „Úrslit kosninganna gætu orðið til þess, fyrr eða síðar, að allt sem við höfum áorkað verði afturkallað,“ sagði McConnell í ræðu á sunnudaginn var.