
„Skynjuðu ýmislegt sem á eftir að fylgja þeim“
„Í þessum mikla harmleik sáu eða skynjuðu margir íbúar hverfisins ýmislegt sem á eftir að fylgja þeim allt þeirra líf,“ segir í bókuninni. „Nú hafa rústir hússins staðið í fjóra mánuði og rannsóknum á staðnum löngu lokið. Það er ennþá brunalykt, hætta að börn fara inn í húsið, að það kvikni aftur í, að það fjúki af því á næstu hús eða að það hrynji alveg í næstu haustlægð.“
Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa valdið dauða þeirra sem létust í brunanum og fyrir að hafa gert tilraun til að drepa tíu til viðbótar.
Vinnu við skýrslu um rannsóknina er lokið og er hún í umsagnarferli.
Í bókuninni er mælst til þess að rústirnar verði fjarlægðar og lóðin hreinsuð í nóvember áður en næsta haustlægð skellur á. Verði eigandi ekki strax við tilmælum borgarinnar um að fjarlægja rústirnar mælist íbúaráðið til þess að borgin láti fjarlægja þær strax á kostnað eiganda eins og lög um mannvirki gefa heimild til.