Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Skynjuðu ýmislegt sem á eftir að fylgja þeim“

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þórhallsson - RÚV
Íbúaráð Vesturbæjar mælist til þess að rústir hússins við Bræðraborgarstíg 1, sem brann 25. júní í sumar, verði fjarlægðar. Þrennt lést í brunanum og í bókun í fundargerð ráðsins segir að rústirnar veki slæmar minningar um þann harmleik og daglegan óhug hjá þeim sem þarna búa.

„Í þessum mikla harmleik sáu eða skynjuðu margir íbúar hverfisins ýmislegt sem á eftir að fylgja þeim allt þeirra líf,“ segir í bókuninni. „Nú hafa rústir hússins staðið í fjóra mánuði og rannsóknum á staðnum löngu lokið.  Það er ennþá brunalykt, hætta að börn fara inn í húsið, að það kvikni  aftur í, að það fjúki af því á næstu hús eða að það hrynji alveg í næstu haustlægð.“

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa valdið dauða þeirra sem létust í brunanum og fyrir að hafa gert tilraun til að drepa tíu til viðbótar.

Vinnu við skýrslu um rannsóknina er lokið og er hún í umsagnarferli.

Í bókuninni er mælst til þess að rústirnar verði fjarlægðar og lóðin hreinsuð í nóvember áður en næsta haustlægð skellur á. Verði eigandi ekki strax við tilmælum borgarinnar um að fjarlægja rústirnar mælist íbúaráðið til þess að borgin láti fjarlægja þær strax á kostnað eiganda eins og lög um mannvirki gefa heimild til.