Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segja vangaveltur um framvindu á Landakoti ótímabærar

27.10.2020 - 15:23
Landspítalinn við Hringbraut.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
„Vangaveltur um hugsanlega framvindu á athugun á því hópsmiti sem varð á Landakoti eru ótímabærar og mega ekki tefja það vandasama verkefni að vinna úr þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp,“ segir í tilkynningu sem Landspítalinn sendi frá sér í dag. Þar er sérstaklega lögð áhersla á að ekkert ósætti ríki milli Landspítalans og Embættis landlæknis vegna hópsýkingarinnar á Landakoti.

Um níutíu smit hafa verið rakin til hópsýkingar á Landakoti og fréttastofa fjallaði um atburðarásina á Landakoti í kvöldfréttum í gærkvöldi og í Kastljósi. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, sagðist í samtali við Morgunblaðið vera ósáttur við viðbrögð embættis Landlæknis við málinu en Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður Landlæknis sagði við fjölmiðla í gær að hópsmitið yrði mögulega tilkynnt sem alvarlegt atvik og þá rannsakað sem slíkt.

Ekkert ósætti milli Landspítalans og landlæknis

Í nýrri tilkynningu Landspítalans segir að af fréttum síðasta sólarhrings megi draga þá ályktun að ósætti sé milli Landspítala og Embættis landlæknis um athugun á hópsmiti á Landakoti. „Það er fjarri sanni og enginn fótur fyrir slíku. Landspítali og Embætti landlæknis hafa þvert á móti átt náið samstarf í heimsfaraldrinum sem hefur í einu og öllu einkennst af gagnkvæmri virðingu og sameiginlegum skilningi á því umfangsmikla verkefni sem blasir við vegna COVID-19,“ segir í tilkynningunni. 

Smitrakning enn í gangi

Í tilkynningunni segir einnig að smitrakning standi yfir innan spítalans í samstarfi við smitrakningarteymi almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra vegna hópsýkingarinnar. „Það er af niðurstöðu þeirrar vinnu sem lærdómur verður dreginn. Upplýsingamiðlun um þann lærdóm verður fumlaus þegar þar að kemur.“ Nú sé hins vegar of snemmt að velta fyrir sér hugsanlegri framvindu á athuguninni og að slíkar vangaveltur megi ekki tefja verkefnið sem felst í því að vinna úr þeirra alvarlegu stöðu sem upp sé komin. 

„Íslenska heilbrigðiskerfið er undir gríðarlegu álagi við fordæmalausar aðstæður í miðjum heimsfaraldri. Mikilvægt er að mannauðnum þar sé skapaður nauðsynlegur vinnufriður og veitt sú virðing sem hann á skilið. Þolinmæði og þrautseigja eru lykilatriði þegar mörk hins mögulega eru þanin til hins ítrasta.  Við þetta og margt fleira fást Landspítali og Embætti landlæknis jafnóðum allan sólarhringinn, af þolgæði og í einbeittum og samstíga takti,“ segir ennfrekar í tilkynningunni.