Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Riðusýni tekin á tugum bæja í Tröllaskagahólfi

27.10.2020 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Grænumýri, Syðri-Hofdalir og Hof í Skagafirði fá úr því skorið seinna í dag hvort skera þurfi niður hátt í tvö þúsund fjár á bæjunum vegna riðu. Bráðabirgðaniðurstöður sem fengust á föstudag gefa til kynna smitandi riðu. Héraðsdýralæknir segir sýni hafa verið tekin á tugum bæja.

Smitrakning í fullum gangi

Smitandi riða greindist á bænum Stóru Ökrum í Skagafirði í síðustu viku og þar þarf að lóga um 800 kindum. Smitrakning á riðunni hófst þegar í stað og hefur sjúkdómurinn líklegast dreift sér víða um Skagafjörð. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum sem fengust fyrir helgi hefur riðusmit greinst á þremur búum í Skagafirði til viðbótar með hátt í tvö þúsund fjár. Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi Vestra segir að smitrakning gangi vel. 

Gera ráð fyrir einhverjum jákvæðum niðurstöðum

„Við erum að bíða eftir niðurstöðum úr sýnum sem að við höfum verið að taka og höfum bara verið að bíða eftir þeim og halda áfram að rekja okkur áfram og reyna að hugsa fram í tímann og gera ráð fyrir einhverjum jákvæðum niðurstöðum"

En hvernig er með framhaldið, hafið þið tekið sýni á fleiri bæjum en þessum fjórum?

„Já um leið og það var fyrst sterkur grunur um riðu á Stóru Ökrum þá fórum við og tókum sýni í sláturhúsum, öllu fullorðnu sem var í Tröllaskagahólfinu, Svo höfum við verið að taka sýni úr gripum sem að hafa verið fluttir frá þessum bæjum sem við höfum mestar áhyggjur af."

Gætir þu slegið á hvað þetta eru mrgir bæjir sem þið hafið tekið sýni af?

„Það eru einhverjir tugir"

Jón reiknar með niðurstöðum úr sýnatökum á allra næstu dögum.

Mynd með færslu
Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi Vestra