Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nú geti „brugðið til beggja vona“ í faraldrinum

27.10.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sóttvarnalæknir segir að nú viðkvæmur tími í faraldrinum og að brugðið geti til beggja vona. Um níutíu smit hafa verið rakin til hópsýkingar á Landakoti.

59 innanlandssmit kórónuveirunnar greindust í gær. Af þeim voru 40 í sóttkví við greiningu. 53 eru á sjúkrahúsi með sjúkdóminn, þar af er einn á gjörgæslu.

Um 90 smit rakin til Landakots

Tíu af smitum gærdagsins má rekja til hópsýkingar á Landakoti, um níutíu smit eru nú rakin til Landakots - en veiran dreifðist þaðan á Reykjalund og Sólvelli á Eyrarbakka. Landspítalinn rannsakar smitið og hvort einhver misbrestur hafi verið í verklagi á spítalanum.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, segist í samtali við Morgunblaðið vera ósáttur við viðbrögð embættis Landlæknis við málinu en Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður Landlæknis sagði við fjölmiðla í gær að hópsmitið yrði mögulega tilkynnt sem alvarlegt atvik og þá rannsakað sem slíkt. Már segir að rakning sé ígildi rannsóknar og að ekki sé útlit fyrir að misbrestur hafi orðið í starfsemi spítalans. Forstjóri Landspítala sagði í samtali við fréttastofu í gær að ekki yrði tekin ákvörðun um hvort að atvikið yrði tilkynnt fyrr en smitrakningu og skoðun spítalans væri lokið.

Líkur á að smitið hafi breiðst út í samfélagið aukast

Enn hefur ekki tekist að ná utan um hópsýkinguna, en fram hefur komið að spítalinn verði jafnvel alla vikuna að greina smitið. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist hafa áhyggjur af því að smitið hafi borist út í samfélagið.

„Mælikvarðinn sem við erum að nota á samfélagssmitin, það er að segja ef við drögum þessa hjópsýkingu frá, þá er sú tala ekki að fara niður og hún hefur aðeins farið upp miðað við tölurnar frá því í gær. Þannig að maður hefur vissar áhyggjur af því að þetta gæti verið farið að breiðast út í samfélagið.

Enn gæti bæst í hóp viðkvæmra sjúklinga á Landakoti sem greinast með smit.

„Það gæti tekið upp undir viku og jafnvel lengur í sumum tilvikum að veikjast og sýna einkenni og það er bara ekki komnir það margir dagar þannig að við þurfum að vera búin undir það að geta séð aukningu og fleiri einstaklinga veikjast núna á næstu dögum,“ segir Þórólfur.

Skoðar hvort herða þurfi aðgerðir

Ljóst er að hópsýkingin var bakslag í baráttunni við faraldurinn. Nú geti brugðið til beggja vona. Núgildandi sóttvarnaaðgerðir gilda til 3. nóvember. Þórólfur undirbýr tillögur að nýjum aðgerðum sem hann hyggst skila til ráðherra á næstu dögum.

„Við erum bara á krítískum punkti finnst mér. Ég hefði viljað vera farinn að sjá meiri fækkun á samfélagssmitum í kjölfarið af þessum hörðu aðgerðum sem að síðast var gripið til fyrir um það bil viku. En við vitum að þegar það kemur upp svona stórt hópsmit þá getur komið bakslag í þetta allt saman. Við erum bara að skoða það hvort að að halda áfram eða hvort við þurfum að breyta um takt og breyta áherslum en það getur núna brugðið til beggja vona um það hvort við fáum einhverja aukningu eða jafnvel fækkun,“ segir Þórólfur.