Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Barrett segir lögin alltaf eiga að ráða för

epa08776634 Associate Justice of the Supreme Court Clarence Thomas (R) administers the oath of office to Judge Amy Coney Barrett (L) to be Associate Justice of the Supreme Court on the South Lawn of the White House in Washington, DC, USA, 26 October 2020.  EPA-EFE/Ken Cedeno / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Consolidated News Photos POOL
Amy Coney Barrett nýskipaður dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna lýsti því yfir að hún muni hvorki láta pólítísk öfl né eigin skoðanir hafa áhrif á störf sín.

Þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykktu skipun Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma.

Með valinu eykst styrkur íhaldssamari dómara við réttinn í sex af níu. Atkvæði féllu þannig að 52 voru með en 48 á móti. Þetta er í fyrsta sinn um einnar og hálfrar aldar skeið að dómari er valinn í Hæstarétt án atkvæðis frá flokki í minnihluta þingsins.

Barrett hefur þegar svarið eið að stjórnarskránni og getur því hafið störf sem Hæstaréttardómari. Mikill urgur hefur verið í Demókrötum vegna tilnefningar hennar, þeim þykir til að mynda sennilegt Hæstiréttur muni snúa við mikilvægum málum á borð við almannatryggingakerfinu sem sett var á laggirnar á forsetatíð Barracks Obama, Obamacare.

Sömuleiðis telja Demókratar líklegt að Barrett muni vilja snúa við löggjöf um þungunarrof í landinu. Þriðja atriðið sem veldur Demókrötum hugarangri er sá möguleiki að Trump skjóti niðurstöðum forsetakosninganna til Hæstaréttar fari svo að hann láti í minni pokann fyrir Joe Biden. Forsetinn hefur sagt að hann muni óhikað láta Hæstarétt skera úr um úrslitin.

Barrett kvaðst í ávarpi sínu hvorki láta geig né greiðasemi ráða því hvernig hún úrskurðaði í málum. „Með því að sverja eið að stjórnarskránni lýsir dómari ekki aðeins yfir því að hún muni starfa óháð þingi og forseta heldur einnig sínum eigin skoðunum sem annars gætu stjórnað vegferð hennar. Eiðurinn fangar þessa þungamiðju í skyldum dómarans. Lögin eiga alltaf að ráða för!"

Barrett, sem er fimmta konan til að setjast í Hæstarétt Bandaríkjanna, kveðst full lítillætis og þakklætis fyrir þann heiður að fá að þjóna í embætti hæstaréttardómara. Loks bar hún saman ólíkar skyldur dómara og öldungadeildarþingmanna. Þeim síðarnefndu bæri skylda til að láta stefnumál ráða för en dómurum bæri skylda til að gera það ekki.

Litið er á niðurstöðuna sem vatn á myllu Donalds Trump Bandaríkjaforseta en hann hefur átt á brattann að sækja gagnvart keppinauti sínum Joe Biden. „Þetta er þýðingarmikill dagur fyrir Bandaríkin,“ sagði forsetinn eftir að Amy Coney Barrett hafði svarið eið að stjórnarskránni.

Auk þriggja hæstaréttardómara hefur Trump skipað tugi ungra, íhaldssamra dómara við alríkisdómstólana í landinu.