Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vill ekki leggja það á bændur að skera oft niður

26.10.2020 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Töluverð óvissa er um hvernig meðhöndla skuli fé sem skorið verður niður í Skagafirði eftir að riða kom upp í síðustu viku. Útlit er fyrir að farga þurfi meira en tvö þúsund fjár hið minnsta. Héraðsdýralæknir vill fá skýrari leiðbeiningar frá ráðuneytinu.

Flókið verkefni framundan

Eins og greint var frá fyrir helgi hefur riða verið staðfest á bænum Stóru Ökrum í Skagafirði og þar þarf að farga um 800 kindum. Í framhaldi af því var tekið til við að kortleggja útbreiðslu smitsins sem virðist hafa dreift sér um Skagafjörð. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum sem fengust á föstudag hefur riðusmit greinst á þremur sauðfjárbúum í Skagafirði til viðbótar með hátt í tvö þúsund fjár. Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra, segir að nú taki við flókið verkefni. 

„Ekki hægt að leggja það að á sálarlíf bænda"

„Helsta vandamálið er förgunin á þessum hræjum. Það er bara ein brennslustöð á landinu og hún er á Reykjanesi og þeir vilja ekki taka við hræjum sem er farið að slá í. Ég hef einu sinni boðið bændum upp á að skera oft niður á sama bænum til þess að verða við kröfu Kölku um að koma með fersk hræ til þeirra en ég fer ekki í það aftur því það er ekki hægt að leggja það að á sálarlíf bænda að vera endalaust að koma á bæinn og skera niður bústofninn þeirra," segir Jón Kolbeinn. 

Hvernig ætlið þið að leysa úr þessu þá?

„Ég bara óska eftir stuðningi frá ráðuneytinu varðandi það. Því að urðunarmál á Íslandi eru ekki í góðum farvegi og hafa ekki verið í mörg ár." 

Leggja inn erindi til ráðuneytisins

Samkvæmt upplýsingum frá Silju Unnarsdóttur, sérgreinadýralækni hjá Matvælastofnun, hefur stofnunin þegar lagt inn erindi til ráðuneytisins um hvað gera skuli. Meginreglan sé sú að brenna eigi allt riðusýkt fé en í þessu tilfelli muni það reynast erfitt.