Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Við erum öll tifandi tímasprengjur“

Mynd: Benedikt / Benedikt

„Við erum öll tifandi tímasprengjur“

26.10.2020 - 15:43

Höfundar

Þagnarbindindi er heiti á nýju skáldverki eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Verkið er á mörkum ljóðs og sögu og fjallar um sambandsslit og missi, söknuð og sársauka. „Í þögninni er skerandi sársauki,“ segir Halla, „ég held að við þekkjum það öll sem höfum þagað á ólíkum stundum.“

Halla Þórlaug segist fara algerlega inn í kvikuna í þessari bók. „Ég er algerlega inni í kvikunni. Ég er að fjalla um sambandsslit en ekki bara ein sambandsslit heldur mörg og þau tvinnast saman í gegnum skáldskapinn. Þetta eru gamlir textar og glænýjir textar sem áttu leið inn í sama Google-doc skjalið einn góðan veðurdag.“

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði Höllu fyrr á þessu ári Nýræktarstyrk fyrir þetta verk, en styrkirnir eru veitt­ir ár­lega fyr­ir skáld­verk höf­unda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvell­in­um, óháð aldri, til að hvetja þá til frek­ari dáða á þeirri braut.

Í umsögn bók­menntaráðgjafa Miðstöðvar íslenskra bókmenna um Þagnarbindindi segir:

„Ljóðsag­an Þagn­ar­bind­indi miðlar hug­ar­heimi konu sem reyn­ir að ná tök­um á minn­ing­um um missi og ótta, um sam­skipti við kon­urn­ar sem hafa verið henni nán­ast­ar og henda reiður á svo mörgu sem hún hef­ur aldrei sagt. Á yf­ir­borðinu hafa ljóðin lág­stemmt yf­ir­bragð hvers­dags­raun­sæ­is en mark­visst mynd­mál og at­hug­an­ir und­ir­strika sárs­auk­ann í þögn­inni og til­finn­inga­lega dýpt und­ir kyrr­látu yf­ir­borðinu.“

Halla hef­ur starfað sem dag­skrár­gerðarmaður á Rás 1 og meðal annars stýrt menn­ing­arþátt­un­um Víðsjá, Tengi­vagn­in­um og Bók vik­unn­ar. Hún út­skrifaðist með BA-gráðu í mynd­list og úr rit­list við Há­skóla Íslands árið 2014.

„Þögnin er flókið fyrirbæri“

Framan á eiturbleikri bók er eftirfarandi tilvitnun í verkið: „Það eru kaflar um mæður og það eru kaflar um dætur. Kaflar um konur og kaflar um þig. Á milli þessara kafla eru kaflaskil og þar er kannski mesti sársaukinn.“ Halla Þórlaug skrifar um sársauka í þessari bók sem tengist meðal annars sambandsslitum, því að bera frumburð undir belti í framandi stórborg og móðurmissi. „Við erum öll tifandi tímasprengjur,“ skrifar Halla. Og hún skrifar líka um þrúgandi þögn milli tveggja elskenda í vanda, kæfandi, þykka þögn sem umlykur þungar hugsanir.

„Í þögninni er skerandi sársauki,“ segir Halla, „ég held að við þekkjum það öll sem höfum þagað á ólíkum stundum, þagað með öðru fólki. Og það getur verið svo erfitt að þaga, á ögurstundum að átta sig á því að stundum er best að þegja, bara hlusta. Þögnin er flókið fyrirbæri.“

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt

Halla Þórlaug segir að bókin hafi legið í dvala í um það bil heilt ár, textarnir hafi fengið að „marínerast“ í tímanum, svo hafi fleiri textar bæst við undir lokin. „Að koma að þeim svo aftur núna er ótrúlega merkilegt af því að ég er einhvern veginn önnur. Maður verður annar með hverjum deginum. En það er heilandi að skrifa og heilandi að lesa og sérstaklega texta sem fjalla um reynsluheim sem maður þekkir ekki sjálfur. Margt af því sem ég er að skrifa um er eldgamalt. Ég er að skrifa um það hvernig ég upplifði það að missa mömmu mína 2008, en kannski þurfti ég að þegja aðeins í smástund og láta það líka koma til mín og þora að taka það skref. Það er skrýtið að koma að þessu og það er gott að koma að þessu og þetta einhvern veginn breytist í hvert sinn sem ég kíki á þetta.“

Sársaukafullur skilningur

„Hrekkleysi“ er orð sem kemur við sögu í Þagnarbindindi, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. „Ég átti samtal við vinkonu mína sem gekk í gegnum hræðilegar raunir og hún sagði við mig, af því ég var eitthvað að býsnast yfir mínu eigin hrekkleysi, „við erum öll hrekklaus þangað til við skiljum.“ Og það getur verið mjög sársaukafullt að öðlast þennan skilning.“

Undir lok bókarinnar skrifar Halla um þá tilfinningu sem fylgir því að sleppa, hverfa burt frá nístandi þögninni, einsemdinni sem getur fylgt nánu sambandi við aðra manneskju, sambandi sem í raun og veru heyrir sögunni til, á fjarlægri eyju, skammt frá framandi borg. „Það er góð tilfinning þegar maður leyfir sér að sleppa takinu,“ segir Halla. „Það tengist kannski því að sleppa stjórnseminni af því við getum ekki stjórnað neinu. Og þegar maður horfist í augu við það og nálgast lífið með æðruleysi, það er rosalega valdeflandi í sjálfu sér.“ 

Kvikan og hugrekkið

Halla Þórlaug segir það góða tilfinningu að gefa út þessa bók nú, bók sem byggir leynt eða ljóst á hennar eigin reynslu, böl hvunndags og ástar í andarslitrunum, sorgar sem enginn læknar, þótt umfram allt sé auðvitað um skáldskap að ræða. „Hvernig varstu í raun og veru og af hverju hættum við saman?“ spyr ljóðmælandi, nú eða bara Halla sjálf þar sem hún skrifar um sára reynslu sem færð er í búning skáldskapar. Hún skrifar einnig að það sé „alls kostar ómögulegt að gefa fólki ráð sem er í raunverulegum krísum. Menn ættu að forðast það í lengstu lög.“

„Ég er svolítið hissa, fólk er að tala um hvað ég sé hugrökk,“ segir Halla. „Ég veit líka að það er mikið sett í allskonar önnur form og ég er ekki að dylja neitt en ég vona að fólk upplifi það ekki að ég sé að ganga nakin um torg, þetta er skáldskapur. En vissulega þá er ég að skrifa um alvöru tilfinningar, bæði mínar og fólks sem ég kynntist á minni vegferð. Það er bara góð tilfinning, held ég.“ 

Þagnarbindindi kemur út hjá bókaforlaginu Benedikt. Rætt var við Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur í Víðsjá. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Nýræktarstyrkir veittir nýjum höfundum