Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Talibanar í ímyndarherferð

26.10.2020 - 04:23
U.S. peace envoy Zalmay Khalilzad, left, and Mullah Abdul Ghani Baradar, the Taliban group's top political leader sign a peace agreement between Taliban and U.S. officials in Doha, Qatar, Saturday, Feb. 29, 2020. The United States is poised to sign a peace agreement with Taliban militants on Saturday aimed at bringing an end to 18 years of bloodshed in Afghanistan and allowing U.S. troops to return home from America's longest war. (AP Photo/Hussein Sayed)
 Mynd: APimages
Leiðtogar Talibana gera hvað þeir geta að sanna að þeir séu stjórntækir og leggja sig í líma við að bæta ímynd sína. Friðarviðræður standa nú yfir í Katar milli Talibana og ríkjandi stjórnvalda í Afganistan.

Þar stendur meðal annars til að draga upp framtíðarstjórnskipan landsins eftir að erlent herlið hverfur þaðan á næsta ári.

Áróðursdeild Talibana dælir því út stöðugum straumi skilaboða um stjórnvísi þeirra á samfélagsmiðlum og á áferðarfallegri vefsíðu. Þeir vinna skipulega að því að sannfæra almenning í Afganistan um að þeir séu löghlýðnir, skipulagðir og ábyrgir stjórnendur.

Talibanar hafa líka gert tilraun til að endurskapa ímynd hinna nátengdu Haqqani-samtaka. Þau eru talin bera ábyrgð á einhverjum mestu grimmdarverkum sem framin hafa verið í stríðinu í Afganistan.

Í nýrri heimildamynd er Jalaluddin Haqqani stofnanda samtakanna, sem lést 2018, lýst sem miklum umbótamanni sem barðist fyrir frelsi Afganistan í fjörutíu ár, fyrst við Sovétmenn og síðar Bandaríkjamenn.

Zabihullah Mujahid talsmaður Talibana segir í samtali við AFP fréttastofuna að með myndinni eigi að sýna Haqqani í helgiljóma. Sediq Sediqqi talsmaður Ashraf Ghani bendir á að ýmsar mótsagnir sé að finna í skilaboðum Talibana.

Hann segir að á meðan friðarviðræðunum hefur staðið hafi Talibanar látið til skarar skríða með árásum gegn saklausum almenningi í landinu, þar á meðal konum og börnum.

Í stjórnartíð Talibana frá 1996 til 2001 hafi konum verið refsað fyrir að fara út úr húsi, þeir hafi bannað hvers konar skemmtanir og komið á opinberum aftökum og refsingum af mörgu tagi.