Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Takmarkanir áfram þar til bóluefni lítur dagsins ljós

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Það verða einhverjar takmarkanir á daglegu lífi fólks þar til bóluefni við COVID-19 hefur litið dagsins ljós. Þetta sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þetta væri nauðsynlegt til að „við lendum ekki í verri vandræðum en núna.“ Hann segir það til skoðunar hvort hægt verði að skylda fólk, jafnvel frá ákveðnum löndum, til að fara í tvöfalda skimun í stað þess að slíkt sé valkvætt líkt og nú er. Tölur næstu daga skera úr um hver næstu skref verða.

Alls greindust 50 með kórónuveiruna í gær og aðeins 44 prósent þeirra voru í sóttkví. 21 smit tengist hópsýkingunni á Landakoti. „Og því er núna hægt að flokka 29 sem samfélagssmit,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundinum í dag. 

Búið er að greina 80 með veiruna sem hafa  tengsl við Landakot og á þriðja hundrað eru í sóttkví vegna hópsmitsins, bæði starfsfólk og sjúklingar.  Helsta áhyggjuefnið næstu daga, sagði Þórólfur, væri hvort smitið hefði borist út í samfélagið.

Ein helsta brýningin á fundinum í dag var til vinnuveitenda; að daglega væri starfsfólk hvatt til að halda sig heima ef það fyndi til minnstu einkenna. Fara þá í skimun og vera í einangrun þar til niðurstaða lægi fyrir.  Starfsmenn sem sinntu viðkvæmum hópum ættu að vera sérstaklega varir um sig og forðast margmenni. 

Þórólfur sagðist byrjaður að undirbúa næsta minnisblað til ráðherra og að tölur næstu daga myndu hafa mikið að segja um hver næstu skref yrðu.  Það væri langt í land og því nauðsynlegt að fólk sýndi þolinmæði og léti ekki hendur fallast.

Hann upplýsti jafnframt að til skoðunar væri hvort hægt væri að skylda fólk sem kæmi til landsins í tvöfalda skimun.  Hægt er að velja milli þess og tveggja vikna sóttkvíar. Til greina kæmi að slík skylda gilti fyrir ákveðin lönd en nánast allir sem hafa greinst með veiruna við landamæraskimun hafa komið frá Póllandi.

Öllum valkvæðum aðgerðum verður frestað frá og með morgundeginum og til miðjan nóvember, ef heilbrigðisráðherra fellst á tillögu landlæknis sem fastlega er búist við. Þetta á bæði við um aðgerðir hjá hinu opinbera og í einkageiranum.  Alma Möller hvatti fólk engu að síður til að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, hvort sem það væri vegna langvinnra veikinda eða nýtilkominna einkenna. 

Fjölgað hefði í bakvarðarsveitinni en besta leiðin til að sinna heilbrigðisþjónustu væri að halda veirunni niðri og þar gætu allir lagt sitt af mörkum.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, upplýsti á fundinum að nú væri 51 inniliggjandi á spítalanum með COVID-veikindi. Spítalinn væri að undirbúa sig undir erfiðar tvær vikur. Sex væri nú metnir rauðir sem þýðir að þeir eru líklegir til að leggjast inn og yfir þrjátíu eru með gulan litakóða. Þeim er þá ekki að batna. 

Páll sagði sögu af einstæðri móður sem væri að vinna á Landakoti og hefði ekki getað hugsað sér að mæta ekki til vinnu. Hún hefði greinst neikvæð en faðir barnanna hefði tekið þau til sín til að hún gæti mætt til vinnu. Hún sæi því ekki börnin sín næsta hálfa mánuðinn en væri vakin og sofin yfir sjúklingum sínum.

Því var vísað á bug á fundinum að rekja mætti smitið á Landakoti til einhvers gleðskapar hjá starfsmönnum. Ekkert slíkt hefði komið í ljós. Nú væri verið að rekja smitin en engin merki sæjust um að smitið þaðan væri farið að breiðast út um samfélagið. Þórólfur átti þó von á því að slíkt gæti gerst.

Hann virkaði jafnframt aðeins bjartsýnni varðandi bóluefni eftir að sóttvarnalæknir Bandaríkjanna sagðist vongóður um það í gær að bóluefni yrði komið á markað í lok nóvember. „En það eiga eftir að koma niðurstöður úr stóru prófunum og þær ráða miklu hvort ábyrg stjórnvöld vilja nota bóluefnið eða ekki.“

Og Þórólfur var nokkuð afdráttarlaus um það hvort aðgerðir yrðu við lýði út þetta ár. Slíkt yrði að vera þar til bóluefni væri komið til að „við lendum ekki í enn verri vandræðum en nú er.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV