Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Smitið á Landakoti stór og alvarlegur atburður

Mynd: Skjáskot / RÚV
Smitið á Landakoti er einstakur og alvarlegur atburður, segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans. Hún segir að mikilvægt sé að hlusta á gagnrýni aðstandenda en bendir á að það sé heilmargt að sjá um til að tryggja öryggi starfsmanna og sjúklinga.

Þetta kom fram í viðtali Þórhildar Þorkelsdóttur við Guðlaugu Rakel í beinni útsendingu sjónvarpsfrétta í kvöld.

Guðlaug sagði að fyrst hefði orðið vart við kórónuveirusmit á Landakoti um miðjan dag á fimmtudag og segir að það sé mikil mildi að sjúklingur, sem verið var að flytja frá deildinni til Stykkishólms skyldi ekki fara þar inn.

Lýsti glundroða og skorti á upplýsingum

Rætt var við Hallgerði Gunnlaugsdóttur, dóttur sjúklingsins, í kvöldfréttum. Þar sagði hún að fjölskyldunni hefði reiknast til að það hefði verið kominn upp grunur um smit áður en faðir hennar var sendur af stað í Stykkishólm. Lagt var af stað klukkan þrjú og hún fékk símtal frá starfsmanni Landakots klukkan fimm um að faðir hennar þyrfti að fara í sóttkví.

„Það er bara það sem okkur reiknast til að það hlýtur að hafa verið kominn grunur áður en að hann er lagður af stað ef jákvæð niðurstaða fæst klukkan fimm. Það getur ekki hafa verið innan við tvo tíma, bæði ákvarðanataka um að taka sýni, fá sýni tekið og fá niðurstöður,“ sagði Hallgerður.

Þá sagði hún að fjölskyldan hefði fengið misvísandi skilaboð um hvort þau  ættu að vera í sóttkví eða ekki og að ekki hafi verið staðið nægilega vel að upplýsingagjöf.

„Mér þykir bara leitt að þetta hafi orðið svona mikill glundroði og illa staðið að þessu sko. Ég myndi miklu frekar vilja sjá að þetta hefði allt verið höndlað vel,“ sagði Hallgerður. 

Grunur um smit um það leyti sem bíllinn fór af stað 

Guðlaug svaraði því til að grunur um smit hefði verið kominn upp um það leyti sem bíllinn fór af stað. 

Guðlaug benti jafnframt á að smitið á Landakoti væri stór og alvarlegur atburður og það væri heilmikið að sjá um til að tryggja öryggi bæði starfsmanna og sjúklinga. Engu að síður væri mikilvægt að hlusta á gagnrýni frá aðstandendum sem sögðust margir ekki hafa vitað hvort þeir ættu að fara í sóttkví eða ekki.  

Guðlaug sagði alla smitrakningu taka tíma; Landspítali væri sjálfur með smitrakningu innan spítalans og smitrakningateymi almannavarna sæi um að rekja smit utan sjúkrahússins. „Þetta er einstakur atburður og allt starfsfólkið á Landakoti hefur staðið sig einstaklega vel.“