Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ríkisborgararéttur til sölu

26.10.2020 - 20:09
Erlent · Kýpur · Spegillinn · Spilling · Evrópa · Stjórnmál
Mynd: EPA-EFE / EPA
Á pappír virðist kannski ekkert að því að fólk geti fengið ríkisfang gegn fjárfestingu. Í raun hefur þetta verið aðferð fólks með illa fengið fé til að kaupa sér ESB-ríkisborgararétt og þar með aðgang að öllum ESB-löndunum. Eftir afhjúpanir fjölmiðla, nú síðast Al Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar, hyggst Evrópusambandið taka málið upp við Kýpur og Möltu og hefur varað Búlgaríu við. Það eru þó mun fleiri lönd þar sem svipað er í boði.

Lissabon: ,,Það  eru bara allir að flytja hingað“

Fyrir nokkrum árum var tíðindamaður Spegilsins í Lissabon og rakst þar á bandarískan bankamann úr einkabankaþjónustu í stórum alþjóðlegum banka. ,,Það eru bara allir að flytja hingað,“ varð bankamanninum að orði. Þessir ,,allir“ voru reyndar ekki allir almennt, heldur átti við bandarískan kúnnahóp bankamannsins.

Portúgal býður auðmönnum, án evrópsks vegabréfs, að fjárfesta ákveðna upphæð í tilteknum eignum og veitir á móti búseturétt sem síðan getur orðið ríkisborgararéttur og hliðið þá opið til allra ESB-landanna.

Vegabréf gegn fjárfestingu: gömul hugmynd í endurnýjun lífdaga

Fyrirkomulagið er ekki nýtt, kviknaði í þessari mynd á 9. áratugnum í Karíbahafinu á St Kitts og Nevis þegar eyríkið skorti fé. Það sló þó ekki í gegn fyrr en 2009 að ríkisborgarar þar fengu rétt til að ferðast til Schengen-landanna án vegabréfsáritunar. Árið 2014 var giskað á að 14-30 prósent af landsframleiðslu eyríkisins kæmi frá þessum fjárfestingum.

Mörg ESB-lönd bjóða ríkisborgararétt gegn fjárfestingu

Mörg ESB-lönd bjóða einhvers konar búseturéttindi og síðan möguleika á ríkisfangi gegn tiltekinni fjárfestingaupphæð, til dæmis Lettland, Grikkland, Spánn, Austurríki, Búlgaría, Kýpur og Malta, auk Portúgals.

Forsenda ríkisborgararéttar í nútíma skilningi er tengsl ríkisborgara og landsins, sem veitir réttinn, negld niður í alþjóðlegum úrskurði 1955. Ríkisborgararéttur gegn fjárfestingu í ESB-landi sprettur þó ekki alltaf af vilja til að tengjast landinu heldur til að geta afhafnað sig hvar sem er í ESB.

Á pappírnum eru reglurnar strangar

Á pappírnum eru all staðar strangar reglur til að hindra að skuggaöfl með illa fengið fé komist inn, til dæmis krafa um óflekkað mannorð. En líka lengi grunur um að reglunum sé misvel framfyglt, ýmsar fréttir í þá veruna.

Á Kýpur eru leiðir framhjá reglunum

Í sumar birti Al Jazeera sjónvarpsstöðin fréttir um leka 1400 slíkra umsókna á Kýpur. Ef marka má skjölin virðast yfirvöld þar ekki rýna mikið í umsækjendur og hvaðan fé þeirra kemur. Undanfarið hefur stöðin svo birt frekara efni. Fréttamenn þóttust fulltrúar Kínverja, sem hefði flúið heimalandið vegna fjármálamisferla og síðan dæmdur í fjarveru sinni í sjö ára fangelsi fyrir peningaþvætti og mútugreiðslur.

Allt hægt með réttu samböndunum

Ekkert mál með réttu samböndunum, sögðu kýpversku milligöngumennirnir sem buðu líka vegabréf með fölsku nafni.

Fasteignasali á Kýpur, Tony Kay, sérhæfir sig í að selja allt í einum pakka, fjárfestingu og vegabréf. Um annan viðskiptavin með flekkað mannorð sagði Kay: Okkur tókst, í gegnum sambönd Chris, að brjóta allar reglurnar.“

Sambönd við þingmann og þingforseta

Umræddur Chris er Christakis Giovanis, eigandi byggingafyrirtækis og þingmaður. Fasteignir og fasteignafjárfestingar Giovanis gjarnan tengst erlendum fjárfestingum gegn vegabréfi. Og samböndin náðu lengra.

Hér er það Demetris Syllouris forseti Kýpurþings sem segir við fulltrúa hins meinta kínverska fjárfestis að hann geti ekki fullyrt 100 prósent að þetta gangi upp en 99 prósent geti hann lofað að svo verði.

Forseti Kýpur gleðst ekki yfir rannsókn

Syllouris og Giovanis hafa sagt af sér þingmennsku. Kýpversku viðmælendurnir í Al Jazeera þættinum segjast hafa grunað Kínverjann um peningaþvætti og vakið athygli yfirvalda á honum.

Ríkissaksóknari Kýpur hyggst nú rannsaka málið. En þegar fréttamenn hittu Nicos Anastasiades forseta Kýpur fyrir nokkrum dögum sagði forsetinn að bragði, án þess að átta sig að að hann væri í mynd: ,,Ef einhver nefnir Al Jazeera við mig þá fer hann til helvítis.“

Grunur að sama tíðkist á Möltu og í Búlgaríu

Auk Kýpur er sami grunur uppi varðandi Möltu og Búlgaríu. Evrópuþingið hefur rætt efnið, síðast nú í vikunni. Framkvæmdastjórn ESB hefur áður viðrað áhyggjur. Ursula von der Leyen nefndi þetta nýlega, sagði þá að evrópsk gildi væru ekki til sölu. Nú ætlar ESB að taka til sinna ráða, spurning hvort hugur fylgir máli.

Eins og að berjast við marghöfða þursa

Þetta er líka svolítið eins og að berjast við marghöfða þursa: þegar einn hausinn er hogginn af sprettur annar í staðinn – Malta hafði til dæmis áður aflagt þetta fjárfestingatilboð en síðan tekið það aftur upp í breyttri mynd.

 

 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV