Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leggja fram kæru og krefjast sjóprófs

26.10.2020 - 23:11
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni funduðu með lögmönnum í dag um sameiginlegar aðgerðir „vegna framgöngu Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. og hunsun á tilmælum yfirvalda um viðbrögð við hópsmiti um borð í togaranum.“ Stéttarfélögin telja framgöngu frystihússins vítaverða og hafa ákveðið að kæra málið til lögreglu og krefjast þess að fram fari sjópróf.

„Stéttarfélögin eru sammála um að nauðsynlegt sé að rannsaka málið í kjölinn, fá allar staðreyndir upp á yfirborðið og draga þá til ábyrgðar sem stóðu að þeirri ákvörðun að halda skipinu til veiða í stað þess að bregðast við stöðunni með ábyrgum hætti,“ segir í tilkynningu frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga.

Af 25 skipverjum um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni veiktust 22 af COVID-19 og þremur vikum síðar var fyrst farið í sýnatöku. Sá fyrsti veiktist aðeins tveimur dögum eftir að lagt var af stað í þriggja vikna veiðitúr. Hann var sendur í þriggja daga einangrun og í kjölfarið veiktust skipverjarnir hver á fætur öðrum og næstu fjórir voru að sama skapi sendir í þriggja daga einangrun.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV