Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

18 Evrópulönd með hærra nýgengi en Ísland

26.10.2020 - 17:51
epa08773267 People out for a walk in the historic center of Rome, Italy, 25 October 2020. Italian Prime Minister Giuseppe Conte announced new nationwide coronavirus restrictions that will come into effect as of 26 October and include the closure of restaurants and bars by 6pm and shutting down gyms, cinemas and swimming pools.  EPA-EFE/MASSIMO PERCOSSI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er nú hærra í 18 Evrópulöndum en á Íslandi, samkvæmt vef sóttvarnastofnunar Evrópu. Fyrir rúmri viku voru þessi lönd aðeins sex og nýgengis-talan var hærri hér en á Spáni. Nýgengi smita er áfram hæst á Íslandi þegar horft er til Norðulanda.

Með nýgengi smita er átt við fjölda smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Talan hefur verið notuð sem viðmið yfir þróun faraldursins og mörg lönd horfa til hennar þegar metið er hvort viðkomandi svæði sé hááhættusvæði eða ekki. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í dag að til greina kæmi að hætta með þann möguleika að fólk valið um að fara í tveggja vikna sóttkví í stað tvöfaldrar skimunar. Ástæðan væri sú að faraldurinn væri í örum vexti í öðrum Evrópulöndum.

Ef talan gefur rétt mynd af stöðu mála er staðan verst í Belgíu og Tékklandi þar sem nýgengi smita er yfir 1.300. Til samanburðar má nefna að þessi tala er hér 258 og hefur farið lækkandi frá 18. október eftir að hafa hæst náð 291 smiti á hverja hundrað þúsund íbúa síðasta hálfa mánuðinn. Óvíst er þó hvaða áhrif hópsýkingin á Landakoti hefur á þessa tölu en 50 greindust með innanlandssmit í gær, þar af voru aðeins 44 prósent í sóttkví.

Nýgengi smita er áfram hæst hér á landi af Norðurlöndum.  Það gæti þó breyst því faraldurinn er í örum vexti í Danmörku þar sem meira en þúsund greindust með veiruna síðustu 28 klukkustundir, samkvæmt vef DR. Þar fjölgar líka sjúklingum sem þurfa að leggjast inn. Á vef SVT kemur fram að 1.625 hafi greinst með kórónuveiruna um helgina og fjöldi þeirra sem hefur látist úr COVID-19 nálgast nú sex þúsund.

Í Noregi hafa yfirvöld einnig áhyggjur af því að farsóttin sé að ná sér á flug. „Kórónuveirufaraldurinn er kominn aftur eins og haustmyrkrið,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, þegar hún tilkynnti um nýjar og hertar aðgerðir til að hefta útbreiðslu faraldursins.

Ítarlega verður fjallað um þróun faraldursins í öðrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum síðar í kvöld á ruv.is.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV