Óvænt álitamál vegna sjálfsfróunar á fjarfundi

Mynd: Pexels / Pexels

Óvænt álitamál vegna sjálfsfróunar á fjarfundi

25.10.2020 - 09:47

Höfundar

Blaðamaður tímaritsins The New Yorker varð í vikunni uppvís að því að fróa sér á fjarfundi. Atvikið hefur verið fordæmt sem áreitni en einnig vakið upp óvænta spurningu á tímum veirunnar: Má fróa sér í fjarvinnunni?

Árið 2017 birtist smásaga eftir Colin Nissan í tímaritinu The New Yorker. Hún er skrifuð eins og símtal. Sagan fjallar um hversu erfitt það er að vinna heima. Róbert, sá sem hringir í Neyðarlínuna, þarf að fara á fund seinna um daginn en er ófær um að hafa sig til. Hann hefur ekki enn dregið frá gluggunum, kemst í uppnám þegar hann áttar sig á því að hann er enn í náttfötunum og getur ekki hætt að borða. Þess á milli horfir hann á klám.

Þegar sagan er skrifuð, þremur árum áður en heimsfaraldur braust út, var fólk sem vann heima oftast verktakar, sem stjórna yfirleitt tíma sínum sjálfir, ólíkt daglaunafólki. Þetta hefur auðvitað breyst. Núna hafa allir sem geta unnið heima verið sendir heim á einhverjum tímapunkti og sama hversu mikið er reynt að kalla það fjarvinnu en ekki heimavinnu er ljóst að vinnustaðurinn hefur þröngvað sér leið inn á heimili okkar. Og hvar liggja þá mörkin þar á milli? 

Lítum til Bandaríkjanna, þar sem blaðamaðurinn Jeffrey Toobin, klúðraði þeim mörkum allrækilega í vikunni.

Myndavél suður á bóginn

Toobin skrifar einmitt fyrir tímaritið sem fyrrnefnd smásaga birtist í, The New Yorker, sem sérfræðingur í bandaríska réttarkerfinu en hann kemur einnig reglulega fram á CNN sem álitsgjafi. Í liðinni viku var hann á hópfundi tímaritsins á Zoom þar sem þátttakendur brugðu sér í hlutverk hinna ýmsu leikmanna í yfirstandandi kosningum til að líkja eftir aðstæðum á kosninganótt. Samkvæmt vefmiðlinum Vice tóku margar af stærstu stjörnum tímaritsins þátt í þessu kosninga LARPi - ein fór með hlutverk Repúblikana flokksins, önnur var Joe Biden. Donald Trump, öfgahægrið, Demókratar, herinn o.s.frv. voru til staðar – eða blaðamenn í þeirra hlutverki auk nokkurra annarra starfsmanna miðilsins og Jeffrey Toobin fór með hlutverk dómstólanna.

Samkvæmt heimildarmönnum Vice hafði Zoom-fundurinn staðið í nokkurn tíma þegar tekin var eins konar pása, til þess að Repúblikanarnir og Demókratarnir gætu ráðið ráðum sínum á sér Zoom-fundum. Á þeim tímapunkti virðist Toobin einnig hafa tekið sér pásu.

Toobin virtist taka annað myndsímtal, segja heimildarmenn Vice. Þegar hóparnir tveir sneru aftur á aðalfundinn, beindi Toobin vefmyndavélinni suður á bóginn. Við blasti getnaðarlimur Toobins, og hendur hans, sem struku hann. 

Þá yfirgaf Toobin samtalið en hringdi sig svo aftur inn á fundinn, fáeinum augnablikum síðar, að því er virtist alls ómeðvitaður um að kollegar hans hafi séð hann fróa sér. Og fundurinn hélt áfram.

„Ég hélt að ég hefði mjútað” 

En auðvitað hafði athæfið afleiðingar. Þú kippir ekki í hann á fundi, fyrir framan vinnufélaga þína, án þess að vera tekinn allverulega á teppið. Toobin hefur verið sendur í leyfi frá The New Yorker og gert hlé á þátttöku sinni í umræðum á CNN. 

Hefði athæfið átt sér stað inni í fundarherbergi hefði Toobin örugglega verið rekinn umsvifalaust og það sem meira er, kærður fyrir kynferðislega áreitni. En Toobin var ekki í fundarherbergi. Hann var heima hjá sér, á fjarfundi, og hann segir sjálfur að um óviljaverk hafi verið að ræða.

„Ég gerði vandræðalega heimskuleg mistök, haldandi að ég væri ekki í mynd. Ég bið eiginkonu mína afsökunar, fjölskyldu, vini og samstarfsfólk,” sagði Toobin í samtali við Vice. „Ég hélt að ég sæist ekki á Zoom. Ég hélt að enginn á Zoom-fundinum gæti séð mig. Ég hélt að ég hefði mjútað Zoom-vídjóið.”

Kannski hefur Toobin ekki gert sér grein fyrir að hann væri enn þá á fundinum yfirhöfuð en ef hann sá enn og heyrði í kollegum sínum er fátt sem afsakar hegðun hans. Toobin gæti enn verið rekinn og kærður. Hvort sem atvikið átti sér stað viljandi eða ekki ber hann ábyrgð á því og þarf því að taka ábyrgð á því. En atvikið varpar fram áhugaverðri spurningu: má yfirhöfuð fróa sér í vinnunni?

Engin fróun, ekkert hneyksli

Mörkin sem heimavinnan hefur máð milli vinnu og einkalífs eru margvísleg. Heimavinnan hefur breytt því hvernig við klæðum okkur - ef við klæðum okkur þá yfirhöfuð. Hún hefur þurft að aðlagast þörfum barnanna okkar og maka, gert sumum kleift að vinna upp í rúmi, neytt aðra til að vinna inni á baðherbergi. Núna getum við múltítaskað á meðan við tökum þátt í fjarfundum, við getum sett á okkur maskara, farið í göngutúr eða jafnvel eldað á meðan við hlustum á samstarfsfólk okkar masa um málefni dagsins. Sum okkar hafa jafnvel gengið lengra og farið á klósettið á meðan á slíkum fundum stendur - og sum okkar, hafa rétt eins og Toobin, gleymt að slökkva á vefmyndavélinni, eða hljóðnemanum, á meðan við léttum á okkur. 

Það er auðvitað ekki hægt að banna starfsfólki að ganga örna sinna í vinnunni þó auðvitað væri oftast best að geyma slíkt þar til að fundi loknum. Ef þú pissar ekki á fundi, sjá kollegar þínir þig ekki pissa á fundi. 

Eins hefði argentínski þingmaðurinn Juan Emilio Ameri kannski mátt muna að ef þú kyssir ekki brjóst kærustunnar þinnar á fjarþingfundi, sér enginn þig kyssa brjóst kærustunnar þinnar á fjarþingfundi. Reyndar horfði Ameri beint í myndavélinna, rétt áður en hann lét vaða, svo kannski vissi hann vel hvað hann var að gera, og hann sagði af sér í kjölfarið. Það sama gildir ekki um mexíkósku þingkonuna Martha Lucía Mícher Camarena sem var að skipta um föt og fór úr að ofan á miðjum fundi um efnahagsmál - hún sagðist vissulega ekki hafa vitað að enn væri kveikt á myndavélinni, en að hún skammaðist sín ekki fyrir líkama sinn. 

Jeffrey Toobin var ekki að skipta um buxur og hann var ekki að kjassast í konunni sinni. Hann var að gæla við sig. Og eins og margir hafa bent hefðu vinnufélagar hans ekki séð hann fróa sér ef hann hefði ekki fróað sér í vinnunni.

Sjálfsfróun til bjargar þjóð

En aðrir andmæla þeim hugmyndum. Ekki lógíkinni að baki þeim, heldur því að fólk megi ekki kitla sig smá í heimavinnunni.

Þeirra á meðal er blaðamaðurinn Sarah Marshall, sem tísti um málið í gær. Hún er lítill aðdáandi Toobins og segir að það sem hann gerði hljómi eins og áreitni. En, hún sagði umræðuna einnig vera að missa af einum grundvallarsannleik: Að það að vinna heima sé dásamlegt einmitt vegna þess að það gefur manni tækifæri á að fróa sér í einrúmi (hún skrifar það orð í hástöfum) um miðjan dag. Við skulum ekki henda barninu út með baðvatninu, skrifar Marshall. 

Og er það ekki bara satt?

Fólk fróar sér af ýmsum ástæðum. Það er eðlileg kynhegðun svo lengi sem hún er stunduð í einrúmi eða með fullri vitund og samþykki viðstaddra - sem aftur, hafa aldur og hæfi til að veita slíkt samþykki. Meðal algengustu ástæðna sjálfsfróunar er spennulosun, sjálfsfróun hjálpar fólki að slappa af.

Sjálfsfróun á ekki heima á vinnustöðum, þó hún sé eflaust stunduð meira í slíkum sameiginlegum rýmum en við gerum okkur grein fyrir. En ef vinnustaðurinn er heimili starfsfólks, skiptir það þá einhverju máli þó það nýti þau verkfæri sem það hefur til taks til að losa um streitu - svo lengi sem það hefur ekki áhrif á framleiðni, samskipti við samstarfsfólk eða aðra vinnu yfirhöfuð. Er það að snerta sig í einrúmi, þegar upp er staðið, mikið öðruvísi en að fara á klósettið?

Vinnuumhverfið er að breytast og krafan um viðveru frá níu til fimm er síhjákátlegri í mörgum starfsgreinum, þar sem sést að sveigjanleiki atvinnurekenda og vinnutíma styrkir starfskraftinn. Við eigum samt erfitt með að sleppa af henni tökunum, og mörg okkar vinna jafnvel frekar of mikið og brenna út. Streita er samfélagslegt vandamál sem mikilvægt er að sporna við og kannski getum við lagt hönd á plóg, með því að leggja hönd á eigin plóg.

Munum bara að hafa slökkt á Zoom á meðan.