Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Katrín Tanja með silfur á heimsleikunum í CrossFit

Mynd með færslu
 Mynd: CrossFit Games YouTube - Skjáskot

Katrín Tanja með silfur á heimsleikunum í CrossFit

25.10.2020 - 23:27
Katrín Tanja Davíðsdóttir hafnaði í öðru sæti á heimsleikunum í CrossFit sem lauk í Kaliforníu í kvöld. Hún fær fyrir árangurinn 16 milljónir króna í verðlaunafé eða 115 þúsund Bandaríkjadali.

Þetta er í fórða sinn sem Katrín kemst á verðlaunapall á leikunum þar sem keppt er um tignina „þau hraustustu í heimi." Tia-Clair Toomey frá Ástralíu var í algerum sérflokki og tryggði sér titilinn fjórða árið í röð. Bandaríkjamaðurinn Mathew Fraser sigraði í karlaflokki, fimmta árið í röð.

Katrín Tanja varð í öðru sæti í lokakeppnisgreininni en í þriðja sæti í hinum greinunum tveimur á lokakeppnisdeginum. Hún var í þriðja sæti eftir fyrsta keppnisdag, vann sig upp í annað sætið á öðrum degi, laugardag, og hélt því sæti til loka. Yfirburðir Tiu Toomey voru hins vegar of miklir fyrir aðra keppendur til að ná henni.

Þessi sigurganga Toomey hófst árið 2017 eftir að Katrín Tanja hafði unnið heimsmeistaratitilinn tvö ár í röð þar á undan.

Lokastaðan í kvennaflokki

1 Tia-Clair Toomey (Ástralía) 1025 stig
2 Katrín Tanja Davíðsdóttir (Ísland) 665 stig
3 Kari Pearce (USA) 585 stig
4 Haley Adams (USA)  560 stig
5 Brooke Wells (USA) 525 stig

Mynd með færslu
 Mynd: CrossFit Games YouTube - Skjáskot

Katrín Tanja var eini Íslendingurinn á heimsleikunum þetta árið. Vegna Covid-19 var keppt með breyttu fyrirkomulagi, aðeins fimm keppendur í karlaflokki og fimm í kvennaflokki komust í ofurúrslit heimsleikanna og kepptu í tólf greinum á þremur dögum.

Hér má sjá lokakeppnisgreinina á YouTube rás heimsleikanna ásamt verðlaunaathöfn og viðtölum.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Úrslitin ráðast á heimsleikunum í CrossFit