Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Hún situr í mér og mun gera það áfram“

Mynd: RÚV / Kiljan

„Hún situr í mér og mun gera það áfram“

25.10.2020 - 11:58

Höfundar

Kolbrún Bergþórsdóttir og Sverrir Norland segja að Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson sé launfyndin bók um hremmingar miðaldra landeiganda og samband okkar við náttúruna.

Aðalpersóna bókarinnar er fjölskyldufaðir á Austurlandi sem hefur ræktað upp skóg með sínum eigin föður á landareign sinni. „Það er flott hvernig skógurinn endurspeglar samband feðganna, en líka samband okkar við náttúruna,“ segir Sverrir Norland, en undir skóginum finnast sprengjur frá tíma seinni heimsstyrjaldarinnar.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir að bókin sé öðrum þræði háalvarleg og fjalli um dauða, eyðingu og vá. „En svo er hún svo launfyndin. Það var ekki beina framvindan sem heillaði mig heldur allt sem var undirliggjandi.“ Börnin í sögunni óttast stríð og fyllast svo mikilli hræðslu út af loftslagsvánni að þau geta ekki sofið, og Kolbrún tengdi við það. „Við sem ólumst upp við kjarnorkuvána trúðum því að einn daginn gæti heimurinn verið sprengdur í loft upp. Dauðinn er þarna allt um kring og alltaf verið að tala um fólk sem hefur dáið.“

Sverrir og Kolbrún eru sammála um að höfundurinn hafi svo sérstæðan stíl að hægt sé að tala um eitthvað „Jónasarlegt“ sem felist ekki síst í því ósagða. „Mér finnst hann undir miklum áhrifum frá listrænum kvikmyndum sem ýja að hlutunum frekar en sýna þá,“ segir Sverrir og bætir við að Jónas sé flinkur að skrifa samtöl, skapa eftirminnilegar aukapersónur og ókyrrð á milli þeirra. „Ég hlakka til að sjá hvað hann gerir næst. Ég hefði næstum því stundum viljað að hann stuðaði mann aðeins meira. En hún situr í mér og mun gera það áfram.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Svo heyrði ég drunur bergmála yfir mér“

Bókmenntir

Þúsaldarkynslóðin kortlögð í skáldsögum

Bókmenntir

Íslenskur djammveruleiki í skáldsögu

Bókmenntir

„Ég á mér ekkert líf annað en að skrifa“