Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Hann fór mjög hratt niður og er nú kominn á botninn“

25.10.2020 - 09:04
Drangur Ár 307
 Mynd: Björgvin Valur Guðmundsson - Ljósmynd
Togarinn Drangur ÁR-307 liggur nú á botni hafnarinnar í Stöðvarfirði. Sjómenn urðu þess varir um klukkan sjö í morgun, er þeir voru á leið til veiða að skipið hallaði talsvert og skömmu síðar var það sokkið. Fjölmennt lið slökkviliðs og björgunarsveitarmanna vinnur nú að því að hindra mengun frá olíu sem lekur frá skipinu og hreinsa lausamuni sem hafa flotið frá því.

Margeir Margeirsson, varðstjóri slökkviliðsins á Stöðvarfirði, hefur umsjón með aðgerðum á svæðinu.

„Um klukkan sjö í morgun voru bátar að fara á sjó og  menn sáu þá að Drangur hallaði talsvert. Hann fór mjög hratt niður og er nú kominn á botninn,“ segir Margeir. 

Hann segir að Drangur hafi verið á sæbjúgnaveiðum í síðustu viku, en hafi legið við bryggju á Stöðvarfirði síðan þá og hafi verið í viðgerð fyrir nokkrum dögum. Hann segir að talsvert af olíu hafi lekið frá skipinu, þegar hafi verið settar út olíugildrur og svo virðist sem eingöngu sé um brennsluolíu að ræða en ekki svartolíu.  

Tugir manna frá Björgunarsveitinni á Breiðdalsvík og slökkviliðsmenn frá slökkviliðinu á Breiðdalsvík og Fáskrúðsfirði eru nú við störf á svæðinu og verið er að hreinsa  net, kör og annað lauslegt sem hefur flotið upp úr skipinu.

Samkvæmt skrám Fiskistofu er Drangur gerður út af Aurora Seafood, með heimahöfn á Stokkseyri, og hefur eiganda verið gert viðvart, að sögn Margeirs. 
 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir