Hamilton sló met Schumachers

epa08772926 British Formula One driver Lewis Hamilton of Mercedes-AMG Petronas celebrates after winning the 2020 Formula One Grand Prix of Portugal at the Autodromo Internacional do Algarve near Portimao, Portugal, 25 October 2020.  EPA-EFE/Jose Sena Goulao / POOL
 Mynd: EPA

Hamilton sló met Schumachers

25.10.2020 - 15:12
Breski ökuþórinn Lewis Hamilton braut blað í sögu Formúlu 1 kappakstursins í dag þegar hann sigraði í Portúgalskappakstrinum. Þetta er nítugasti og annar sigur Hamilton í Formúlu 1 og tók hann þar með fram úr goðsögninni Michael Schumacher sem vann 91 sigur á sínum ferli.

Sigur Hamilton var öruggur, hann varð 25 sekúndum á undan liðsfélaga sínum hjá Mercedes, Finnanum Valtteri Bottas sem var annar.

Hamilton er nú með 77 stiga forystu á Bottas í stigakeppni ökuþóra og nálgast sjöunda heimsmeistaratitil sinn. Með því að tryggja sér þann titil myndi Hamilton jafna hitt metið sem Schumacher á.

Það fór að hellirigna á Algarve-brautinni skömmu fyrir ræsingu. Röð ökuþóra breyttist ört framan af og Max Verstappen lenti í árekstri við Sergio Perez.  Verstappen náði sér þó aftur á strik og tryggði sér þriðja sætið, 35 sekúndum á eftir Hamilton.

Hamilton var á ráspól  en dróst aftur úr á fyrsta hring og féll niður í þriðja sæti. Honum tókst að lokum að endurheimta forystuna á ný á tuttugasta hring. Eftir það var aldrei spurning hvernig færi og Hamilton réði ferðinni allt til loka, næstu 46 hringina.