Einelti sem eltir allt lífið og oddatala í fjölskyldu

Mynd: Norden / Norden

Einelti sem eltir allt lífið og oddatala í fjölskyldu

25.10.2020 - 18:46

Höfundar

Þær eru nokkuð sérstæðar skáldsögurnar tvær sem Norðmenn tilnefna til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs að þessu sinni.

Hvorug er mikil að vöxtum og hvorug er skáld - eða sjálfsævisaga höfundar, eins og allmargar hinna tilnefndu bóka Norðmanna hafa verið síðustu árin, samanber höfunda eins og Tom Espedal og Karl-Ove Knausgaard. Í skáldsögunum Vi er fem eftir Mattias Feldbakken og  Den goda vennen eftir Björn Esben Almaa er hins vegar skáldað.

Den goda vennen (Vinurinn góði) er skáldsaga um einelti og erfiðleika í skóla í bernsku greinilega hafa fylgt sögumanni alla tíð þótt hann hafi leitast við að gleyma og að líf hans nú hafi engin tengsl við uppvöxt hans og bernsku.

Sagan hefst 28. júli árið 2013 þegar ung hjón ganga inn í gluggatjaldaverslun í þeim tilgangi að kaupa myrkvunargardínur í nýja íbúð sína, en myrkvunargardínur búa jú yfir þeim eiginleika að ekki sést utan frá hvað gerist inni en að innan má sjá það sem gerist úti, sem líta má á sem afhjúpandi mynd af eða myndhverfingu umfjöllunarefni sögunnar. Í skerandi birtu útstillinga verslunarinnar birtist maður með nafn fyrirtækisins saumað í jakkaboðunginn og heilsar sögumanni með nafni. Sögumaður vill hins vegar augljóslega ekkert af fyrri kynnum þeirra vita, man ekki fyrr en eftir nokkra stund hvað maðurinn heitir réttu nafni. Mutt var nafnið sem hann á sínum tíma hafði verið kallaður en þannig getur sögumaður, virðulegur maður sem á bæði íbúð og bíl og tvo syni, ekki ávarpað afgreiðslumann í gardínubúð jafnvel þótt hann þekki hann betur en hann vill viðurkenna því þetta gælunafn eða öllu heldur uppnefni mun vísa til blendingsuppruna og er yfirleitt notað um hunda.

Með þessum fundi hverfur sagan, sem er rétt að byrja 26 ár aftur í tímann til þess tíma þegar sögumaður var unglingur og vildi ekki fara í skólann og vildi heldur ekki segja hvers vegna; aftur til þess tíma þegar hann vissi ekki hverjir væru vinir hans og hverjir ekki og kunni heldur ekki að velja sér vini hvað þá að standa með þeim né með sjálfum sér. 

Den goda vennen er flókin og afar fínlega ofin saga, saga um angist, skelfingu, ótta og hvernig slíkt verður að viðvarandi ástandi í lífi einstaklings og í étur hann innan. En sagan er ekki bara flókin vegna þess hversu djúpstæðar rætur óttans eru og fínlega samanfléttaðar, frásagnaraðferðin er líka verulega ruglandi. Sagan er sögð á tveimur plönum, annars vegar er sögumaður fullorðinn tveggja barna faðir og eiginmaður, líklega í góðri stöðu þótt lesandinn fái aldrei að vita neitt um það. Hins vegar er hann 13 ára gutti að reyna að gera sig gildandi í strákagengi hverfisins meðal annars með því að vera í skátunum og í fótbolta.  

Sagan í núinu hefst í gardínuverslununni sem áður sagði og spannar um það bil tvær vikur, einstakir kaflar bera yfirskrift með dagsetningum. Það sama á við með söguna af drengjunum í úthverfinu en þar spannar sagan eina tvo mánuði og er beinlínis sögð aftur á bak eða frá 30. nóvember aftur til 29. ágúst. Þetta gerir að verkum að lesandinn á erfitt með að henda reiður á venjulegu orsakasamhengi sem gæfi færi á að átta sig á því hvað varð þess valdandi að sögumaður varð sú angistarfulla persóna fullvaxta karlmanns að hann líklega er alltaf að leika.

Hann hlýtur hins vegar að hafa leikið mjög vel í gegnum lífið. Hann á eiginkonu, tvo syni, hús og bíl og er í góðir vinnu. Er það ekki táknmynd einhvers konar velgengni? Við fáum þó  aldrei að vita neitt um það hvernig sögumaður komst á þann stað. Sjónarhorn sögunnar er afar þétt upp við hinn angistarfulla sögumanns, sem fyrir vikið verður eins og alltaf á varðbergi, reyni að dyljast, jafnvel fyrir lesendum.

Den goda vennen er karlasaga, saga um mislukkaða karlmenn og jafnvel litla stráka. Synir sögumanns  hljóta að búa við afar brokkgenga fyrirmynd um eigið kyn í hinum heilsulausa föður sínum, sem finnur fyrir andþrengslum, fær svimaköst, augnlokið festist uppi um hríð þannig að hann getur ekki lokað auganum, mögulega táknmynd þess hvernig hann fylgist stöðugt með umhverfi sínu, stöðugt viðbúinn  árás, rétt eins og þegar hann var smástrákur í raðhúsahverfinu.

Þótt konur komi hér við sögu þá er mynd þeirra í frásögninni afar óljós. Móðir sögumanns reynir að aðstoða hann í bernsku þegar henni er ljóst að ekki er allt með felldu, kennslukonan vill að hann segi frá og eiginkonan skipar honum að fara til læknis, yfirgefur hann reyndar svo.

Den goda vennen er sérstök saga, upphaf hennar er óljóst og endirinn ekki síður, eftirminnilegasta persónan og kannski eina von hennar er í mínum huga yngri sonur sögumanns Iver sem virðist sá eini sem gerir sér grein fyrir að það er eitthvað að pabbanum um leið og hann sýnir honum raunverulega væntumþykju. Ekkert bendir þó til að það bæti stöðu pabbans eða líðan en lesandinn vonar sannarlega það besta fyrir Iver litla. Eldri sonurinn er eins og fleiri persónur sögunnar hins vegar óljós. Den goda vennen er lágstemmd bók sem talar djúpt úr iðrum manns sem þegar upp er staðið virðist einfaldlega aldrei hafa lært að tjá sig, svara fyrir gerðir sínar, góðar og slæmar, þótt hann svo gjarnan vilji. 

Björn Esben Almaas virðist eiga uppruna að rekja til norður Noregs að minnsta kosti stundaði hann bæði nám sitt í ritlist og kvikmyndum við háskóla á þeim slóðum. Den goda vennen er fjórða skáldsaga hans og sú fyrsta í áratug. Áður hafði hann sent frá sér eitt smásagnasafn og tvær skáldsögur. Í umsögn norsku valnefndarinnar er bent á að rödd Björns Esben Almaas skeri sig úr í norskum bókmenntum, minni kannski helst á höfunda eins og franska nóbelshöfundinn Patrick Modiano og landsmann hans Emmanuel Bove.

Mynd: Ivar Kvaal / .
Matias Feldbakken höfundur bókarinnar Vi er fem. Ljósm. Ivar Kval, norden.org

Skáldsagan Vi er er fem eftir Matias Feldbakken virðist í upphafi einkar einföld frásögn af lífi fjölskyldu sem býr í útjaðri lítils ónefnd bæjar en á sannarlega eftir að sýna sig vera allflókin og meira segja nokkuð brjáluð. 

Sagan hefst á kynnum þeirra Tormod og Sivjar í skóla og hvernig hún ákvað að hann skyldi verða eiginmaður sinn. Hún þarf reyndar fyrst að missa hann í klær amfetamíns og ofurframmistöðu í öllu sem varðar tölvur og upplýsingatækni þar sem amfetamínið á endanum nær þó yfirhöndinni og á endanum tekur Siv málið í sínar hendur.

Siv og Tormod giftast, þau byggja sér hús og eignast tvö börn. Þar með virðist lífsorka Sivjar uppurin og hún tekur að skipta tilverunni á milli hjónarúmsins þar sem hún sefur á nóttunni og sófans þar sem hún á daginn borðar og horfir á Netflix seríur. Tormod sér um rest, innkaup, matseld og börnin auk þess að vinna á rafmagnsverkstæði föður síns. Þetta ástand sprengist reyndar upp um hríð þegar fjölskyldan eignast hund, þau verða fimm og í hönd fara góðir tímar. En svo hverfur hundurinn sporlaust og fjölskyldan skreppur aftur í gamla farið þar sem nú tölvufíkn sonarins eykur en á áhyggjur Tormods. 

Til að bjarga fjölskyldulífinu, ekki síst börnunum, fær Tormod sér nokkurt magn af leir fyrir þau að skemmta sér við að móta. Ýmislegt gerist m.a. kemur Espen, vinurinn gamli  frá vímutímabilinu í heimsókn en þeir höfðu á sínum tíma í vímunni brallað ýmislegt með tölvur og tengingar. Nú taka þeir að leika sér með leirinn. Gesturinn hverfur síðan á braut en ýmislegt hefur breyst því það er eins og líf bærist með leirklumpinum. Reyndar höfðu þeir félagarnir blandað margvíslegum segulögnum og fleiru í massann, brotist inn á allra handanna síður til að afla sér upplýsinga um flóknar efnasamsetningar og þar kemur að hægt er að láta leirklumpinn framkvæma ýmis verk auk þess sem hann bregst líka sjálfstætt við. Hér er með öðrum orðum kominn einhvers konar róbott, háþróaður sannarlega nema hvað útlitið varðar. Þar með getur fjölskyldan aftur sagt: Við erum fimm,

Það verður ekki annað sagt en en að skáldsagan Vi er fem sé ekki bara ótrúlega hugvitsamleg, jafnvel brjáluð á köflum, skiptandi um stíl og frásagnarmáta með vísanir í allra handanna popkúltúr áratuganna hvort sínu megin við aldamótin. Sagan er líka afar vel skrifuð, jafnvel ljóðræn, hún er spennandi og vekur margvísleg hugrenningatengsl.

Höfundurinn Matias Faldbakken mun vera þekktur myndlistarmaður í Noregi og víðar og hann hefur allt frá árinu 2000 sent frá sér allmargar bækur sem vakið hafa athygli fyrir frumlega og að því er virðist afar fjörlega nálgun að viðfangsefnum sínum sem meðal annars virðast snúast ungt fólk, klámvæðingu og ofbeldi sem og fíkn af margvíslegum toga.