Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Axlar fulla ábyrgð á því sem gerðist um borð í Júlíusi

25.10.2020 - 12:03
Ísafjörður Höfnin Bryggja BátÍsafjörður Höfnin Bryggja Bátur skip Júlíus Geirmundsson ÍS270
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir út togarann Júíus Geirmundsson segir að það hafi verið mistök að hafa ekki samband við Landhelgisgæsluna um leið og vart varð við einkenni um borð á upphafsdögum túrsins. Hann segir að engin grunsemd hafi verið um COVID-19 um borð fyrr en niðurstöður sýnatöku lágu fyrir.

Ítarlegt viðtal við Einar Val verður birt á vefnum síðar í dag. 

„Við höfðum engan grun um að þetta væri COVID-smit um borð í skipinu, engan“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar. 

„Við áttum að hafa samband við Gæsluna, gerðum það ekki og ég er miður mín yfir þessu og vona að það verði hægt að draga lærdóm af þessu.“ segir Einar Valur.

Af hverju var ekki ákveðið að hafa samband við Gæsluna?

„Samkvæmt verkferlum á að hafa samband við Landhelgisgæsluna, og hún svo við sóttvarnayfirvöld. Við erum búin að vera hérna í samfélaginu í 80 ár, og þegar eitthvað hefur bjátað á um borð í skipum eða annars staðar þá er hringt í sjúkrahúsið, og við bara vanmátum aðstæður, hringdum í sjúkrahúsið. Okkur varð á að hringja í Gæsluna, og biðjumst afsökunar á því, því miður. Það fór úrskeiðis og það mun ekki koma fyrir aftur,“ segir Einar Valur.

Hann segir að samskipti skipsins við útgerðina hafi verið virk allan tímann. Ekki standi til að leita að blórabögglum innan útgerðarinnar eða áhafnarinnar. Hann axli fulla ábyrgð á því sem fór úrskeiðis.

Engum bannað að tala

„Við berum ábyrgð á þessu, ég fyrir hönd fyrirtækisins axla þá ábyrgð og biðst afsökunar á því. Það er einlægni í því.“

En berð þú þá ábyrgð umfram skipstjóra?

„Ég stjórna fyrirtækinu og ber ábyrgð á fyrirtækjarekstrinum og vík ekki undan því.“ segir Einar Valur.

Hann vísar því á bug að samskiptabann hafi verið sett á um borð. 

„Það eru allir með tölvur og síma. Ég vísa því á bug. Það hef ég aldrei heyrt.“  

Sjómenn hraustmenni

Þá hafi enginn verið látinn vinna nauðugur, segir Einar Valur, en sjómenn séu hraustmenni.

„Þetta eru hraustir menn, sjómenn, og ekki gefnir fyrir að kveinka sér. Þetta eru naglar, það verður ekki af þeim tekið.“

Var það þá þeirra persónulega ákvörðun að halda áfram að vinna þegar þeir veiktust?

„Ég get ekki svarað því, ég var ekki um borð í skipinu, en það er enginn látinn vinn nauðugur, það er ekki til í mínum orðaforða.“ segir Einar.