Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

77 smit á Landakoti, Reykjalundi og Sólvöllum

25.10.2020 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
77 einstaklingar hafa greinst í tengslum við hópsýkingu á Landakoti. Smitin hafa greinst hjá 49 sjúklingum og 28 starfsmönnum á Landakoti, á Reykjalundi og Sólvöllum á Eyrarbakka. Á Landspítalanum eru í dag 52 einstaklingar með virkt smit, þar af 20 á Landakoti.

250 starfsmenn á Landspítala eru í sóttkví og 25 sjúklingar eru í sóttkví á spítalanum. 

Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar LSH segir að líklegt sé að starfsmenn hafi borið smit inn á Landakot 12. október. Hann segir að margir af þeim sem hafi greinst undanfarna daga í tengslum við hópsmitið séu með mjög lága CT-tölu sem þýðir að það er með mjög hátt veirumagn. Sem þýðir að það er snemma í sínum sjúkdómi.

Þeir sem voru útskrifaðir frá 12.október til 22. október, þegar smitið greindist, gætu hafa borið smit til annarra stofnana.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir ástæðu þess að ákveðið var að setja Landspítala á neyðarstig sé hópsýking sem komin er upp á Landakoti. Páll segir að það sé nauðsynlegt að setja spítalann í fimmta gír og virkja stuðning alls heilbrigðiskerfisins til að viðhalda starfsemi spítalans. Hann segir að klasasmit hafi uppgötvast á Landakoti fyrir skömmu. Það hefur dreifst mjög víða, smitstuðullinn er mjög hár og smitið hefur dreifst innan og utan spítalans.

„Því miður hefur það nú gerst sem við óttuðumst mest og mörg önnur samfélög hafa þurft að glíma við, að sýkingin blossi upp í okkar viðkvæmustu hópum. Það þarf samtakamátt okkar allra til að taka á þessu.“ segir Páll.