Tólf lagðir inn vegna COVID til viðbótar frá í gær

24.10.2020 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
31 sjúklingur er nú inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19. Fjórir eru á gjörgæsludeild og einn af þeim í öndunarvél.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttarnefndar spítalans. Síðdegis í gær voru 19 inniliggjandi, og þeim hefur því fjölgað um 12 á einum sólarhring. 

Tíu þeirra eru sjúklingar af Landakoti, þar sem hópsýking kom upp í gær, og Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir við Vísi tveir séu af hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka eftir að smit komst þar upp í gærkvöld.

Alls hafa 92 þurft að leggjast inn í þessari þriðju bylgju faraldursins. Þá er 26 starfsmaður í einangrun og 175 í sóttkví.