
Stefnir í eðlileg samskipti milli Súdan og Ísrael
Trump ræddi samkomulagið í síma við Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels og Amdalla Hamdok forsætisráðherra Súdans, á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu. Bandaríkjaforseti lýsti yfir að fimm Arabaríki til viðbótar hefðu áhuga á að friðmælast við Ísrael. Hann nefndi Sádi-Arabíu sérstaklega.
Í sameiginlegri yfirlýsingu Súdans, Ísraels og Bandaríkjanna segir að sendinefndir ríkjanna muni funda á næstu vikum án þess að ákveðnar dagsetningar væru tilgreindar. Sérfræðingar telja samkomulagið sigur fyrir utanríksstefnu Trumps.
Með undirritun samnings um eðlileg samskipti yrði Súdan fimmta Arabaríkið til að gera það. Nokkrar vikur eru síðan Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein undirrituðu samning um eðlileg samskipti við Ísrael. Jórdanía samdi um frið við Ísrael árið 1994 og Egyptaland gerði það árið 1979.
Judson Deere aðstoðarmaður Trumps segir samkomulag Súdans og Ísraels mikilvægt skref í átt til friðar í miðausturlöndum. Mahmud Abbas forseti Palestínu fordæmir samkomulagið harðlega en yfirvöld í Súdan hafa löngum veitt palestínskum skæruliðum skjól og eru grunuð um að hafa útvegað þeim vopn.
Stjórnvöld í Súdan hafa verið andstæð Ísraelsríki allt frá stofnun þess árið 1948 og lagði til hersveitir í Sex daga stríðinu árið 1967. Nokkur breyting varð á viðhorfi ráðamanna í Súdan eftir að Omar al-Bashir var steypt af stóli á síðasta ári en hann hafði ráðið ríkjum frá því hann rændi völdum árið 1989.
BBC greinir frá því að viðbrögð almennings í Súdan séu blendin, að talið sé að stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi frá Bandaríkjunum til að losna af lista þeirra yfir ríki sem styðja við hryðjuverkastarfsemi.