Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir VG hafa gefið allt of mikið eftir í samstarfinu

Mynd með færslu
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna. Mynd: RÚV
Vinstri græn hafa gefið allt of mikið eftir í stjórnarsamstarfi sínu við Sjálfstæðisflokk. Starfsumhverfið innan VG er óheilbrigt og einkennist af aðskilnaðarkúltúr. Þetta segir Andrés Ingi Jónsson þingmaður utan flokka, sem sagði sig úr VG fyrir tæpu ári, í viðtali í Stundinni í dag. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn nýti sér kórónuveirufaraldurinn til að koma umdeildum málum að.

Hvorki Andrés Ingi né Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem sagði sig úr VG  í september studdu stjórnarsáttmála VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þegar hann var gerður í nóvember 2017, en sátu þó áfram á þingi fyrir flokkinn.

Í viðtalinu segir Andrés Ingi að hann hafi upplifað að ekki hafi verið hlustað á skoðanir hans og að upplýsingum hafi verið haldið frá honum. Það hafi verið ástæða þess að hann sagði sig úr flokknum og auk þess hafi honum þótt VG hafa sveigt verulega af leið frá stefnumálum sínum og samið frá sér lykilmál á borð við umhverfismál.  „Guðmundur Ingi [Guðbrandsson] er væntanlega einn besti kandítat í þetta embætti sem Ísland hefur séð í langan tíma, en það var búið að semja undan honum megnið af stóru málunum þegar hann kom að verkinu,“ segir Andrés Ingi.

Andrés Ingi segir að áherslum ríkisstjórnarinnar sé að miklu leyti stýrt af Sjálfstæðisflokknum, bæði í gegnum stjórnarsáttmálann en einnig í gegnum fjármálaráðuneytið.  „Við erum að sjá ýmsar gamlar hugmyndir Sjálfstæðismanna birtast, eins og til dæmis útvistun á grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Nú er COVID notað til að smyrja þá maskínu,“ segir Andrés Ingi.

Hann segir að sjónarmið sín varðandi þau mál sem hann hafði sérþekkingu á, eins og til dæmis útlendingamálin, hafi ekki notið sannmælis og að hann hafi þótt of stífur þegar hann var á móti útlendingafrumvarpi Sigríðar Andersen. Hann segir að þá hafi orðið ákveðin vatnaskil. 

„Þá upplifði ég að mín sjónarmið skiptu ekki máli, hversu réttmæt sem þau voru og hversu mikið þau voru í takt við ekki bara stefnu flokksins heldur líka það sem fulltrúar flokksins sögðu í fjölmiðlum seinna,“ segir Andrés Ingi í viðtalinu við Stundina.