Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir dýrmætustu eignina selda á útsöluverði

23.10.2020 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Eddi
Minnihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggst eindregið gegn því að rúmlega 15 prósenta hlutur bæjarins í HS veitum verði seldur. Oddviti Viðreisnar segir að bærinn muni þannig selja sína dýrmætustu eign á útsöluverði en bæjarstjórinn segir mjög gott verð fást fyrir hlutinn.

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti í gær að taka kauptilboði félags lífeyrissjóða og fjárfesta í ríflega 15 prósenta hlut bæjarins í HS veitum. Tilboðið sem hljómar upp á rúmlega þrjá og hálfan milljarð króna var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur. Bæjarstjórn tekur endanlega ákvörðun um málið í næstu viku. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, segir að salan dragi úr lántökuþörf bæjarins, meðal annars vegna COVID-19.

„Það er ljóst að við erum að fá mjög gott verð fyrir þennan hlut. Og þeir sem eru að gera okkur það tilboð eru lífeyrissjóðir í landinu. Við teljum að með því að losa þessa hlutabréfaeign í óskráðu félagi séum við að fá fram fjármuni sem munu nýtast mun betur í sveitarfélaginu sjálfu,“ segir Rósa .  

Minnihlutinn lagði til að málið yrði sett í íbúakosningu en sú tillaga var felld. Flokkarnir í minnihlutanum leggjast eindregið gegn því að hluturinn verði seldur, en skiptar skoðanir eru þó milli flokka um ástæður þess að salan sé ekki góð hugmynd.

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar, segir að verið sé að selja dýrmætustu eign bæjarins á brunaútsölu þar sem framtíðartekjumöguleikar séu ekki teknir inn í myndina. 

„Asinn á þessu öllu, hraðinn, leyndin, ber vott um það að hér sé í raun og veru verið að panikka alveg griðarlega. Það hefur enginn stjórnmálaflokkur í Hafnarfirði talað um að það væri á stefnuskránni að selja þennan hlut, enginn. Þetta er ekki bara bisnessdíll, þetta er líka hugmyndafræðilegt. Þetta er rammpólitísk ákvörðun,“ segir Jón Ingi.