Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ísland tekið af gráa listanum

23.10.2020 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - rúv
Ísland hefur verið tekið af gráum lista FATF, alþjóðlegra samtaka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Niðurstaða samtakanna var ljós á fundi í dag. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, tilkynnti þetta á fréttamannafundi nú á öðrum tímanum.

Ísland var sett á gráa lista samtakanna fyrir réttu ári síðan, þar sem hér á landi þóttu ekki vera nægar varnir gegn peningaþvætti. Til að bregðast við því voru meðal annars sett lög sem lúta að skráningu raunverulegra eigenda fyrirtækja og félaga í fyrirtækjaskrá. Í júní var það metið sem svo að Ísland hefði með fullnægjandi hætti lokið aðgerðum til að uppfylla skilyrði samtakanna. 

Endanleg ákvörðun var svo tekin eftir úttekt samtakanna í september, þar sem sérfræðingar komu hér í vettvangsrannsókn. Þá greindu sérfræðingarnir frá því að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

„Undanfarin tvö ár hefur verið  lyft grettistaki í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ég er þakklát fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem hefur verið innt af hendi af hálfu fjölmargra aðila og einstakra stjórnvalda hér á landi til þess að þessi niðurstaða mætti líta dagsins ljós. Eru þeim öllum færðar þakkir og hamingjuóskir í tilefni áfangans,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í tilefni jákvæðrar niðurstöðu FATF.

Snorri Olsen ríkisskattstjóri sagði í hádegisfréttum að hann reikni með að jákvæð áhrif þess að fara af listanum verði strax ljós. Ekki verði þá talin ástæða til að óttast viðskipti við Íslendinga út frá þeim þáttum sem FATF leggur mat á.