Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Íhugar að fara í mál við Matís

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Úlla Árdal
Sveinn Margeirsson, sem vikið var úr starfi forstjóra Matís, íhugar að leita réttar síns vegna uppsagnarinnar. Sveinn var sýknaður af ákæru um sölu afurða af heimaslátruðu fé. Honum var sagt upp í kjölfar ákærunnar.

Ákæruvaldið höfðaði mál gegn Sveini fyrir að selja og dreifa fersku lambakjöti á bændamarkaði á Hofsósi haustið 2018. Gripunum hafði verið slátrað utan löggilts sláturhúss. Í desember sama ár var Sveini var sagt upp starfi forstjóra Matís og ástæðan sögð skortur á trausti milli stjórnarinnar og hans.

Sveinn var sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands vestra á þriðjudaginn. Hann segist enn ekki hafa tekið ákvörðun um að leita réttar síns gagnvart Matís vegna uppsagnarinnar. „Ég er að hugsa málið. Það hafa margir lögfræðingar haft samand og bent á þann möguleika.“

Mest um vert að þetta skili árangri fyrir bændur

Hann segist meta meira málstað bænda í þessu máli en eigin hag. „Mér líður vel sem sveitarstjóri í Skútustaðahreppi. Hér eru kraftmiklir bændur og það eru möguleikar til aukinnar verðmætasköpunar víða um land. Mér finnst mest um vert að þetta mál skili árangri fyrir bændur,“ segir Sveinn.