Hjartnæm kveðja Jóns Daða vekur athygli

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Hjartnæm kveðja Jóns Daða vekur athygli

23.10.2020 - 21:23
Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson, leikmaður Millwall á Englandi, skildi í dag eftir hjartæma athugasemd við Facebook-færslu móður ungs drengs en drengurinn hefur orðið fyrir hrottalegu einelti í Garðabæ. Jón Daði, sem varð sjálfur fyrir einelti á sínum yngri árum, segir að strákarnir í landsliðinu standi allir með drengnum.

Í færslu á Facebook lýsir móðirin því hvernig hún hefur fengið ótal símtöl frá syni sínum þar sem hann er grátandi inni á klósetti í skólanum vegna þess að strákar í skólanum hafi hótað honum, hreytt í hann særandi athugasemdum eða lamið hann. Hún lýsir því þegar hún heyrði í syni sínum tala við vin sinn í símann þar sem hann talaði um að sér liði svo illa í skólanum að hann vildi helst deyja. Drengurinn var að lokum tekinn úr skólanum, en frétti síðar að bekkjarfélagar hefðu klappað þegar þeim var tilkynnt það. 

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í fótbolta, skrifaði athugasemd við færsluna á Facebook en þar segir hann frá því að hann sjálfur hafi orðið fyrir einelti í grunnskóla. 

„Hæ Ólíver. Hvað segiru félagi? Eru strákar sem eru með minnimáttarkennd að stríða þér og leggja þig í slæmt einelti? Láttu mig þekkja það vinur. Ég lenti nákvæmlega í því sama og þú á þínum aldri. Ég var líka alltaf í boltanum. Þannig að það má segja að við séum kannski smá líkir. Þegar ég var á sama stað og þú hvað eineltið varðar, þá leið mér heldur ekki vel," skrifaði Jón Daði.

„Ég var kallaður öllum illu nöfnum og allskonar ljótum athugasemdum voru hreytt í mig. EN ég minnti sjálfann mig á eitt. Strákarnir sem lögðu mig í einelti, þeim leið SJÁLFUM illa. Sennilega verr en mér. Ég fókusaði bara á mig. Varð minn eigin keppnisnautur og vildi gera það besta sem ég gat gert úr MÉR og ekki pæla í því hvað öðrum finnst. Og veistu.. meirihlutinn af þessum strákum sem lögðu mig í einelti eru ekkert merkilegir í dag og urðu að engu sjálfir."

„Þú veist innst inni Ólíver að þú ert hæfileikaríkur og flottur gæi. Ég meina, mér finnst þú vera það og okkur öllum í landsliðinu. Og haltu áfram að æfa þig í boltanum og vera duglegur. Fyrir þig. Þinn félagi - Jón Daði Böðvarsson,"

Tengdar fréttir

Menntamál

Heyrði son sinn óska þess að deyja í kjölfar eineltis