Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimm hress en krefjandi fyrir COVID-þreytta

Mynd með færslu
 Mynd: RCA - Lykke Li

Fimm hress en krefjandi fyrir COVID-þreytta

23.10.2020 - 12:20

Höfundar

Fleetwood Mac goðsögnin Stevie Nicks ríður á vaðið í fimmunni þennan föstudaginn og í kjölfarið koma góðmennið Sufjan Stevens, sænska poppprinsessan Lykke Li, hávaðameistarinn Daniel Lopatin og að lokum Blake, James Blake með einn hristann en ekki hrærðan.

Stevie Nicks ‒ Show Them The Way

Hún ákallar andana og biður þá um hjálp, Fleetwood Mac goðsögnin Stevie Nicks í rokkballöðunni sinni Show Them the Way, lagið er það fyrsta sem hún sendir frá sér síðan platan 24 Karat Gold kom út 2014. Show Them The Way er byggt á draumi sem hana dreymdi í gamla daga. Henni til aðstoðar er Dave Grohl á trommur en ef þið hatið hann þá er lagið líka til í píanóútgáfu.


Sufjan Stevens - Sugar

Síðasti söngull af nýrri plötu Sufjans Stevens, The Ascension, er lagið Sugar og fjallar um að taka sig saman í andlitinu og vera góður við annað fólk. Annars fer platan nokkuð vel í mannskapinn og þykir á sumum heimilum vera ein af plötum ársins.


Lykke Li - Bron

Það hefur ekki mikið farið fyrir Lykke Li Timotej Zachrisson síðan hún söng titillagið á plötu, Marks Ronson, Late Night Tales. Í nýja laginu sínu, Bron, sem hún syngur á móðumálinu vinnur með hún landa sínum, tónskáldinu Ludwig Göransson sem er þekktastur fyrir vinnu sína með Childish Gambino.


Oneohtrix Point Never - Long Road Home

Hávaðaseggurinn Daniel Lopatin hefur komið víða við í tónlistar -og kvikmyndabransanum en er líklega þekktastur fyrir Oneohtrix Point Never sem er gefið út hjá Warp útgáfunni. Í slagaranum Long Road Home vinnur hann með löndu sinni Caroline Polachek en platan Magic Oneohtrix Point Never kemur síðar á árinu.


James Blake - Before

Blake, James Blake er með allra hressasta móti í nýja laginu sínu, Before, sem er tekið af samnefndri sjöundu EP plötu kappans. Þó að Before sé engu U beygja hjá Blakearanum þá er ansi langt síðan að hann bjó til lag sem er danshæft og vel brúklegt á sveittum og syndugum klúbbi.