Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

COVID-smit hjá starfsmönnum og sjúklingi á Landakoti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
COVID-19 smit greindist hjá nokkrum starfsmönnum og einum sjúklingi á öldrunarlækningadeildinni á Landakoti undir kvöld í gær. Deildinni hefur verið lokað fyrir utanaðkomandi umferð. Skimanir og smitrakning standa nú yfir.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir að óvíst sé hvort fleiri hafi smitast. Rakning smita hófst í gær, deildinni var umsvifalaust lokað fyrir utanaðkomandi umferð og til stendur í að skima bæði starfsfólk og sjúklinga í dag.

31 sjúklingur af tveimur deildum eru í sóttkví, en á Landakoti eru nú 58 sjúklingar á fjórum deildum og sjúklingurinn sem greindist með COVID-19 hefur verið fluttur á smitsjúkdómadeild Landspítala. 

Anna Sigrún segir að starfsemi deildarinnar haldist að mestu óbreytt, en þetta verður tekið fyrir á fundi viðbragðsstjórnar og farsóttanefndar Landspítala núna á eftir.