Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilkynntu ekki grun um smit til Landhelgisgæslunnar

22.10.2020 - 22:21
Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga vill að lögregla rannsaki ákvörðun skipstjóra og útgerðar togarans Júlíusar Geirmundssonar að hunsa tilmæli sóttvarnaryfirvalda um að sigla veikum sjómönnum í land. Formaður Sjómannasambandsins segir þetta hafa stefnt lífi áhafnarinnar í hættu.

Félögin tvö sendu tilkynningar út í dag í ljósi hópsýkingar á togaranum Júlíusi Geirmundssyni, en 22 af 25 skipverjum sýktust af COVID-19. Bæði segja þau að Hraðfrystihúsið Gunnvör, sem gerir skipið út, hafi stofnað áhöfn og skipi í hættu með því að hunsa tilmæli um að koma til lands í sýnatöku þegar einkenni gerðu fyrst vart um sig. 

Valmundur Valmundsson er formaður Sjómannasambands Íslands. 

„Það er náttúrulega ábyrgðarlaust hjá skipstjóra og útgerð að stefna ekki skipinu í land til að fá úr þessu skorið. Þetta er dauðans alvara fyrir alla að fá þessa pest. Það er þessi alvarleiki sem við erum að benda á.“

Fylgdu ekki leiðbeiningum vegna COVID-19

Sambandið sendi leiðbeiningar í vor til útgerða og sjómanna vegna COVID-19. Valmundur segir flestar útgerðir fylgja þessum leiðbeiningum. 

„Mér sýnist flestir, sérstaklega þeir sem eru í svona löngum túrum og eins og frystitogarar, menn séu að láta skima sínar áhafnir áður en farið er á sjó.“

Tilkynna ber grun um smit til Landhelgisgæslu Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá gæslunni var henni ekki gert viðvart um smit um borð í togaranum fyrr en á mánudagskvöld, sólarhring eftir sýnatöku. Þá tilkynnti umdæmislæknir sóttvarna að nítján skipverjar hefðu greinst smitaðir. 

Segja alla verkferla þverbrotna

Trúnaðarmaður skipverja hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga hefur þegar leitað til félagsins. 

„Við höfum farið yfir málin með honum og það er alveg ljóst að allir verkferlar hafi verið þverbrotnir og fyrirmælum ekki fylgt,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður félagsins.

Félagið hyggst funda með skipverjum til að fá betri mynd af stöðu mála. Finnbogi segir þá horfa fram á stórfellt tekjutap vegna ákvarðana útgerðarinnar. Þá telji hann rétt að eftirlitsaðilar eða lögregla skoði málið. 

„Þegar reglur um smitvarnir eru brotnar eins og þarna var gert þá finnst mér að eftirlitsaðilar og jafnvel lögregla eigi að taka málið til skoðunar.“

Hraðfrystihúsið Gunnvör sagði í tilkynningu í gær að eftir á að hyggja hefðu verið mistök að fara ekki fyrr í land til sýnatöku. Forsvarsmenn fyrirtækisins gáfu ekki færi á viðtali þegar fréttastofa leitaði eftir því.