
Obama segir Trump ekki taka forsetaembættið alvarlega
Andstæðingar Bidens fullyrða að kenna megi hnignandi andlegri og líkamlegri heilsu varaforsetans um fjarveru hans frá opinberum athöfnum.
Stuðningsmenn Bidens staðhæfa hins vegar að hann sé einfaldlega að undirbúa sig fyrir sjónvarpskappræður frambjóðendanna á fimmtudagskvöldið.
Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti sagði Trump ekki hafa ráðið við embættið þegar hann ávarpaði gesti fyrsta opinbera kosningafundar hans fyrir Biden. Fundurinn var haldinn í borginni Fíladelfíu í Pennsylvaníu, sem er eitt lykilríkjanna í kosningabaráttunni.
„Við hin þurfum að lifa með því að Trump hefur sýnt að hann tekur embættið ekki alvarlega. Þetta er ekki raunveruleikaþáttur heldur blákaldur veruleiki,“ sagði forsetinn fyrrverandi. Biden var varaforseti Obama á árunum 2009 til 2017.
Sem stendur hafa 42 milljónir bandarískra kjósenda þegar greitt atkvæði sitt samkvæmt upplýsingum frá óháðri stofnun á vegum Flórída-háskóla sem heldur utan um kosningaupplýsingar.
Demókratar hafa hvatt kjósendur til að greiða atkvæði svo fljótt sem þeir geta. Það hefur orðið til þess að víða um ríki hafa myndast langar raðir fólks sem bíður eftir að fá að kjósa.
Repúblikanar hafa á hinn bóginn lagt hart að kjósendum að flykkjast á kjörstaði 3. nóvember, vegna hættu á kosningasvindli þegar atkvæði eru greidd fyrir fram. Ekkert virðist þó benda til að svo sé.