Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lögreglan sýni að hún þjóni öllum sem hér búa og dvelja

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það er alveg skýrt, haturstákn og sjónarmið verða ekki liðin innan lögreglunnar, ekki nú né framvegis. Ef við þurfum að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telur rétt, þá gerum við það,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í færslu á Twitter í dag.

Með færslunni bregst Áslaug Arna við máli lögreglumanns sem sást á mynd Morgunblaðsins í gær bera þrjá fána tengda öfgahópum og hatursorðræðu límda á hnífavesti sitt. 

Í færslunni skrifar dómsmálaráðherra að lögreglumenn þurfi að vera meðvitaðir um að gefa ekki frá sér nein merki sem þessi, hvort sem það er með táknum, orðum eða handahreyfingum. „Núna liggur það fyrir skýrar en nokkru sinni og öllum ætti að vera ljóst hvaða þýðingu einstök merki hafa. Við munum því að gera meiri kröfur héreftir,“ skrifar hún. 

Áslaug Arna telur lögregluna hafa brugðist rétt við í gær og að nú hafi verið gefið út með skýrum hætti að það sé bannað að bera merki sem þessi innan lögreglunnar. 

„Ég held að við séum flest sammála um það að íslenskir lögreglumenn leggi sig almennt fram við að koma fram við fólk af vinsemd og virðingu,“ skrifar hún, enda eigi lögreglan að sýna fram á að hún þjóni öllum þeim sem hér búa og dvelja: „Og ég tel að hún geri það.“

Í lokin segir að Ríkislögreglustjóri ræði mál er varða klæðnað lögreglumanna og kynþáttafordóma á fundi lögregluráðs. Símenntun lögreglunnar hafi verið í skoðun og úrbætur á því sviði snúi meðal annars að aukinni fræðslu um hatursorðræðu.